Búið í bili á Reykjanesskaga

Þorvaldur Þórðarson telur að ekkert verði af gosi að sinni.
Þorvaldur Þórðarson telur að ekkert verði af gosi að sinni. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég held að þetta sé bara búið í bili eins og þeir voru að tala um á Veðurstofunni,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is um eldgos sem talið var yfirvofandi á Reykjanesskaga nú síðdegis.

Segir hann jarðskjálftavirknina hafa aukist mjög skyndilega og svo dottið niður aftur. „Það sem menn sáu samfara þessari aukningu í skjálftavirkni var þrýstifall í holunum á Svartsengi til að byrja með, svo þrýstingsaukning, en nú er hún hætt líka,“ segir Þorvaldur enn fremur.

Vel gekk að rýma Bláa lónið í dag og tók …
Vel gekk að rýma Bláa lónið í dag og tók ekki nema um 40 mínútur en um 800 manns voru þar við upphaf rýmingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann telur atburðarásina neðanjarðar sennilega hafa verið þá að kvikuhólfið hafi náð sínum þolmörkum og þá opnast sprunga út úr því sem hins vegar ekki hafi náð upp á yfirborð jarðar.

„Þá bara stoppar atburðurinn, skjálftavirknin tengist því auðvitað að kvika er að fara inn í sprunguna og finna sér leið upp. Þá hefur einhver tilfærsla orðið úr þessu grunna hólfi en streymið að neðan er sennilega óbreytt, það er að segja úr dýpra geymsluhólfinu í grynnra geymsluhólfið,“ útskýrir Þorvaldur.

Taki skemmri tíma að fylla hólfið á ný

Ferlið haldi svo áfram og nú sé spurningin hve mikill þrýstingsléttirinn verði vegna hreyfinganna í dag. „Hann er ekki eins mikill og við höfðum í gosunum svo það tekur þá einhvern skemmri tíma að fylla þetta geymsluhólf aftur upp að því marki að það komist að þolmörkum og þá getum við farið að búast við einhverju aftur,“ segir hann.

Hafi þrjár milljónir rúmmetra farið af stað í dag og miðað við 0,4 milljóna rúmmetra innstreymi á dag taki það rúma viku, sjö til átta daga, að koma hólfinu í svipað ástand og var í dag.

„En það getur verið styttri tími eða lengri, við erum að tala um einhverja daga, jafnvel vikur,“ segir eldfjallafræðingurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert