Ávinningur af fríum mat í skólum muni skila sér

Vilhjálmur segir boltann hjá sveitarfélögunnum.
Vilhjálmur segir boltann hjá sveitarfélögunnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir alveg ljóst að sveitarfélögin verði að gera sér fulla grein fyrir því að aðkoma þeirra að gerð kjarasamninga skiptir gríðarlegu máli, eða jafn miklu og aðkoma stjórnvalda.

„Því ávinningur sveitarfélaga af því að verðbólga fari hér niður og vaxtarstig skiptir þau miklu máli, eins og í raun og veru samfélagið allt,“ segir Vilhjálmur spurður út í forsendur breiðfylkingar stéttarfélaga, í samningaviðræðum um kjarasamninga, sem snúa að sveitarfélögunum.

Til útskýringar er hér verið að vísa í forsendur sem snúa að því að skólamáltíðir í grunnskólum verði gjaldfrjálsar, bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og að gjaldskrárhækkanir verði dregnar til baka.

Ávinningur sveitarfélaganna mun skila sér 

Vilhjálmur kveðst ekki geta tjáð sig ítarlega um aðgerðarpakka stjórnvalda og sveitarfélaganna. Hann segir þó ljóst að ekki sé nægilega mikið hald í þeim yfirlýsingum og upplýsingum sem sveitarfélögin hafa sent frá sér, að minnsta kosti ekki nógu mikið hald til að breiðfylking stéttarfélaga geti sætt sig við þær.

„Við höfum komið þessum skilaboðum rækilega á framfæri við Samband íslenskra sveitarfélaga. Því að það er grundvallaratriði að sveitarfélögin átti sig á því að það sem er verið að gera hér á vinnumarkaði er með þeim hætti að ávinningur sveitarfélaganna af þeirri leið sem við erum að fara, með afar hófstilltum launahækkunum, mun skila sér til sveitarfélaga og ávinningur sveitarfélaga verður í raun og veru miklu meiri heldur en það framlag sem er verið að óska eftir að þau setji í þetta.“

Við þetta bætir Vilhjálmur að í fjármálaáætlunum sveitarfélaganna fyrir árið 2024 sé gert ráð fyrir mun hærri launahækkunum en unnið er að í þeim samningum sem nú eru undir.

„Enda byggjast okkar markmið upp á að ná niður verðbólgu og vöxtum.“

 Geta ekki fallist á orðalag um að leita skuli leiða

„Orðalag af hálfu sambands íslenskra sveitarfélaga er algjörlega óviðunandi eins og það lítur út í dag,“ segir Vilhjálmur. Spurður hvað hann eigi við með því segir hann:

„Leita skuli leiða er orð sem að heldur ekki vatni og er eitthvað sem við getum ekki fallist á.

Til útskýringar segir hann ekki nóg að beina tillögum til sveitarfélaganna um lækkun gjaldskrár frá áramótum heldur verði að tryggja að öll sveitarfélög muni axla ábyrgð í þeirri vegferð.

„Með nákvæmlega sama hætti og launafólk er tilbúið að gera.“

„Sér nánast fyrir endann“

Vilhjálmur segir boltann þessa stundina því einfaldlega hjá sveitarfélögunum og kveður hann sveitarfélögin vita það. Á sama tíma segir hann stjórnvöld hafa axlað sína ábyrgð með því að kynna sína aðkomu með afgerandi hætti.

„Staðan er þannig í þessum töluðu orðum er að það gengur mjög og sér nánast fyrir endann á þeirri vinnu sem hér er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert