Orkuskiptin kalla á nýtingu og rask á náttúru

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar í dag.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir umræðu um orkumál snúast um það hvernig hagkerfi Íslendingar vilji hafa og hvort framleiða eigi aukna græna orku hér á landi eða flytja inn jarðefnaeldsneyti fyrir 150 milljarða eins og gert var á síðasta ári. Segir hún skynsamlegt að fara í orkuskipti og þá þurfi meiri græna orku og það kalli á að náttúrunni sé raskað.

Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Þórdísar á ársfundi Landsvirkjunar í Hörpu í dag.

Þórdís ræddi orkumál í víðu samhengi við framfarir, stríð og önnur alþjóðmál og sagði Íslendinga ekki ónæma fyrir því sem gerðist í öðrum löndum, þrátt fyrir að vera eyja. Þá sagði hún mikilvægt að hafa þessa hluti í huga varðandi ákvarðanatöku í orkumálum.

Getum ekki leyft okkur að horfa bláeygð inn í framtíðina

Vísaði hún meðal annars í bók Stefan Zweig, Veröld sem var, þar sem lýst var trú fólks á framtíð og aukin lífsgæði rétt fyrir fyrri heimstyrjöldina. „Við lifum ekki á tímum þar sem við getum leyft okkur að horfa bláeygð inn í framtíðina og halda að allt muni reddast að lokum,“ sagði Þórdís,

Í þessu sambandi nefndi hún einnig mikilvægi þess að koma á þjóðarsjóði, sem hefur verið til umræðu nú í um áratug. Nefndi Þórdís að slíkum sjóði væri meðal annars ætlað að mæta stórum áföllum eins og hefðu dunið yfir undanfarið, meðal annars faraldri, náttúruhamförum, eða víðtækum netárásum o.s.frv.

Ársfundur Landsvirkjunar fór fram í Norðurljósasal Hörpu.
Ársfundur Landsvirkjunar fór fram í Norðurljósasal Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Gjöful en á sama tíma illviðráðanleg náttúra

Vísaði Þórdís næst til þess að náttúra landsins gæti bæði gefið af sér og kostað þjóðina eins og sjáist á Reykjanesskaga. Hins vegar væri mikilvægt að nýta það sem hægt væri. „Þetta er sama náttúra og er gjöful og gerir Ísland ríkt af orkuauðlindum sem lætur nú vita af sínum illviðráðanlega eyðileggingarmætti. Hluti af því að geta brugðist við áföllum af völdum náttúrunnar er einmitt að stýra nýtingu okkar á þeim gjöfum,“ sagði Þórdís.

Fór hún yfir að svara þyrfti spurningu um hvernig orkuuppbyggingu Íslendingar vildu og taldi upp að meira vatnsafl, jarðhiti og vindur á landi eða sjó væri eitthvað sem hún teldi efnahagslega skynsamlegt fyrir Ísland. Taldi hún slíka þróun og prófun skynsamlega hér á landi. „Ef það lukkast mun þjóðarbúið spara tugi milljarða sem í dag fara í kaup á jarðefnaeldsneyti frá útlöndum,“ sagði hún og nefndi að í fyrra hefði eldsneyti fyrir 150 milljarða verið keypt erlendis frá.

Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“

Sagði Þórdís að trúverðuga leið þyrfti að því markmiði að sækja fram og það væri hagsmunamál að hefjast handa í virkjanamálum. „Það dugir nefnilega ekki að vilja orkuskiptin og grænu nýsköpunina, því þessi tækifæri kalla öll á grænu orkuna. Að sækja hana þýðir að náttúrunni er raskað. Þótt hægt sé og mikilvægt sé að lágmarka það rask, þá verður ekki hjá því komist. Hér þarf fólk að meina það sem segir og segja það sem það raunverulega meinar.“

Bætti hún svo við að orkuskiptin kölluðu á nýtingu náttúrunnar og sömuleiðis rask hennar. „Ef við viljum hætta að nota jarðefnaeldsneyti þá þarf að framleiða raforku sem því nemur. Til að framleiða raforku með grænum hætti og nýta náttúruna þýðir það rask á náttúrnni. Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert