Steinum velt við í stóra vöfflumálinu

Ekki var í kot vísað í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag.
Ekki var í kot vísað í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vöfflubakstur í húsakynnum Ríkissáttasemjara hefur í gegnum árin verið táknrænt fyrir að árangur hafi náðst í kjaradeilum með undirritun samninga.

Íslendingar tengja vöfflubaksturinn við undirskrift kjarasamninga eins og Ítalir tengja hvítan reyk við að nýr páfi hafi verið kosinn. 

Greinarhöfundur hefur ekki verið viðstaddur undirskrift kjarasamninga í Karphúsinu fyrr en í dag og var alveg rasandi bit þegar vöfflujárnið hitnaði ekki í fagnaðarlátunum yfir nýjum samningi á vinnumarkaði. Ekki virtist mér undrunin vera neitt minni hjá gömlum kollega Arnari Björnssyni eða ljósmyndaranum Eggerti Jóhannessyni. 

Ekki var þó í kot vísað hjá embætti Ríkissáttasemjara svo því sé nú til haga haldið og fjölmennar samninganefndir gátu gætt sér á ýmsu góðgæti. 

Er þetta ekki órjúfanleg hefð?

En mér þótti þetta dularfullt með vöfflurnar eða öllu heldur skortinn á þeim. Í fáfræði minni taldi ég að hér væri um órjúfanlega hefð að ræða. Starfsfólkið vísaði allri ábyrgð í málinu frá sér og ein tjáði mér glottandi að málið hefði verið rætt og afgreitt á fundi um morguninn. 

Ástráður Haraldsson þarf að svara mis gáfulegum spurningum.
Ástráður Haraldsson þarf að svara mis gáfulegum spurningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hér var ljóst að mikillar rannsóknarblaðamennsku væri þörf og öllum steinum skyldi velt við. Hvað var hér að gerast? Ástráður Haraldsson tók við embætti ríkissáttasemjara í fyrra. Gat verið að hann hafi bara tekið sig til og stútað þessari gömlu hefð? Hvað gæti manninum hafa gengið til? Hvað gæti mögulega skýrt þetta tómlæti Ástráðs gagnvart vöfflum? Nú myndi ég loksins fá þessi blaðamannaverðlaun. 

Ekki gildisskilyrði kjarasamninga

Forvitnin bar mig ofurliði og því var fátt annað að gera en spyrja Ástráð þessarar aðkallandi spurningar, sem vafalítið var sú allra gáfulegasta sem hann fékk á löngum vinnudegi í dag. 

„Nei nei hefðin hefur ekki verið lögð af. Það er einfaldlega misjafnt hvað passar og hvernig aðstaðan er. Í þessu tilfelli er fólk á hraðferð á annan fund [forystufólkið sótti fund ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu] og hér var auk þess mikill fjöldi fólks í húsi. Þess vegna var þægilegra að gera þetta með öðrum hætti núna. Vöfflur eru góðar en þær eru ekki gildisskilyrði kjarasamninga,“ sagði Ástráður Haraldsson og lét sér hvergi bregða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert