„Forsetinn má aldrei verða meðvirkur“

Baldur ætlar að taka slaginn og bjóða sig fram til …
Baldur ætlar að taka slaginn og bjóða sig fram til forseta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti á að leggjast á árarnar með stjórnvöldum og virða þingræðið en aldrei gerast meðvirkur með valdhöfunum. Ávallt eiga hagsmunir þjóðarinnar í heild að ráða förinni og þarf forsetinn að standa vörð um samfélagssáttmálann og mannréttindi.

Þetta segir Baldur Þórhallsson sem kynnti í hádeginu að hann ætlaði að „taka slaginn“ og fara í forsetaframboð, við miklar undirtektir í Bæjarbíói í Hafnarfirði. 

Hann telur mikilvægt að forsetinn nýti sér dagskrárvaldið til fulls og setji mikilvæg málefni á oddinn, til að mynda málefni barna og ungmenna.

Flakkað fram og til baka

Háværir orðrómar hafa verið uppi um hugsanlegt framboð Baldurs sem hefur tekið sér nokkrar vikur til að íhuga hvort hann ætli fram. Í samtali við mbl.is í febrúar sagðist hann „vera að hlusta“ á þá sem kæmu til máls við sig.

„Við höfum verið mjög feimnir gagnvart þessu verkefni. Fólk sem kom að máli við okkur strax á nýársdag. Við sögðum að við skyldum hlusta og velta þessu fyrir okkur en ég verð að viðurkenna það að maður hefur alveg flakkað fram og til baka í því hvort við ættum að gera þetta eða ekki og stundum höfum við orðið sannfærðir um það að það væri best að sitja hjá. Þá hefur einhver komið með hárblásarann á okkur og sagt okkur til syndanna. „Þið ætlið ekki að standa vörð um mannréttindi, standa vörð um þá sem minna mega sín í samfélaginu“.“

Hann segir ákvörðunina ekki hafa legið fyrir fyrr en á allra síðustu dögum en að tvenns konar forsendur hefðu þurft að vera til staðar áður en hann gat gert upp hug sinn.

„Ég vil hafa eitthvað að segja, við Felix [Bergsson] höfum engan áhuga á að trana okkur fram, við viljum hafa eitthvað að segja. Í öðru lagi þá þyrfti að vera víðtækur stuðningur – að maður upplifði ekki einhverja búbblu og við höfum fundið gríðarlega mikinn stuðning og styrk á síðustu dögum og vikum.“

Fjölmennt var í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Fjölmennt var í Bæjarbíói í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verður ætíð að hafa hagsmuni heildarinnar í huga

Spurður hvaða augum hann líti hlutverk forseta nefnir Baldur nokkur atriði. Forseti eigi að reyna að tryggja að þjóðin horfi til þess sem sameini hana frekar en sundri. Forseti eigi jafnframt að standa vörð um samfélagssáttmálann, þær leikreglur og viðmið sem gildi í samfélaginu og hafi reynst því vel.

Þá telur hann að forseti eigi að nýta dagskrárvaldið til fulls og forgangsraða málum, líkt og málefnum barna og ungmenna, standa þétt við bakið á þeim sem minna mega sín í samfélaginu og vinna að mannréttindamálum allra samborgara sinna. 

„Við eigum að nýta það tækifæri sem felst í því að vera lítið og öflugt ríki til þess að verja hagsmuni okkar og láta gott af okkur leiða í samfélagi þjóðanna. Forsetaembættið getur opnað dyr erlendis og við eigum að nýta það til þess að opna dyr, bæði fyrir stjórnvöld og fólkið í landinu.“

Þá nefnir hann að forsetinn sé fulltrúi þjóðarinnar gagnvart ríkisstjórn hvers tíma og eigi að hafa beint samband við þjóðina. 

„Forsetinn má aldrei verða meðvirkur með valdhöfunum eða ráðamönnum í íslensku samfélagi, vegna þess að hann verður ætíð að hafa hagsmuni heildarinnar í huga.“

Þá ber forseta að staldra við

En má túlka það sem svo að þér þyki að forseti eigi að láta meira til sín taka á hinum pólitíska vettvangi samanborið við undanfarin ár? 

„Ef að það sé pólitík að tala fyrir mannréttindamálum, þá já. Ef að það sé pólitík að tala fyrir velferð barna og ungmenna, þá já. Ef að það sé pólitík að forsetinn standi þétt við bakið á þeim sem minna mega sín í íslensku samfélagi, þá já. Að öðru leyti er ég með mjög svipaða sýn á forsetaembættið eins og forsetar sem gegnt hafa embættinu undanfarna áratugi. Forseti á í öllum grundvallaratriðum að virða þingræðið og hann á að sjálfsögðu að mynda ríkisstjórn á grundvelli vilja Alþingis,“ segir Baldur og heldur áfram:

„En að þessu sögðu, ef að Alþingi af einhverjum orsökum fer fram úr sér, gengur fram af þjóðinni, brýtur gegn samfélagssáttmálanum, þessum grundvallarviðmiðum sem ríkja, þá verður forseti að staldra við og huga hvort að vísa eigi málinu til þjóðarinnar.“

Hann segir þessu úrræði þó eingöngu eiga að vera beitt í neyð, til að mynda ef þingið færi gegn grundvallarmannréttindum kvenna eða gengi freklega gegn tjáningarfrelsinu.

„Þá ber forseta að staldra við og athuga hvort að málið eigi ekki heima hjá þjóðinni.“

Telurðu að þetta vald sem forseti hefur til að vísa málum til þjóðarinnar, telurðu það hafa verið vannýtt?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég held að menn hafi farið mjög vel og skynsamlega með það. Þá á ég bæði við þau tilfelli þar sem forsetar hafa ákveðið að láta þingræði ráða för og líka í þeim tilfellum eins og þegar Ólafur Ragnar ákvað að vísa málum til þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert