„Flokkurinn er ekki bara formaðurinn“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaþingflokksformaður Vinstri grænna, myndi styðja Katrínu í …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaþingflokksformaður Vinstri grænna, myndi styðja Katrínu í forsetaembættið ef hún byði sig fram. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaþingflokksformaður Vinstri grænna, segir að erindi ríkisstjórnarinnar sé enn til staðar hvort sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta eða ekki.

Fari Katrín fram þá sé lítið annað í stöðunni en að stjórnarflokkarnir ræði áframhaldandi samstarf.

„Það liggur fyrir þessi stjórnarsáttmáli og við sjáum ekkert annað í þessu en að halda áfram. Flokkurinn er ekki bara formaðurinn, þó hún sé forsætisráðherra í augnablikinu,“ segir Bjarkey í samtali við mbl.is.

Styður Katrínu í forsetaembættið 

Katrín íhugar nú að bjóða sig fram til forseta og sagði í gær að ákvörðun myndi liggja fyrir á allra næstu dögum. Aðspurð segir Bjarkey lítið annað í stöðunni, ef Katrín fer fram, en að stjórnarflokkarnir ræði saman um áframhaldandi samstarf.

„Erindið er áfram til staðar og stjórnarsáttmálinn er til staðar, það er okkar vinnuplagg. Auðvitað, eins og komið hefur fram, er ekkert óeðlilegt að það verði eitthvað endurskoðað og forgangsraðað í því samhengi,“ segir Bjarkey.

Ekki er búið að boða þingflokk VG á fund í dag en Bjarkey segir að þingflokkur muni funda ef til þess kemur að Katrín bjóði sig fram.

„Ég styð Katrínu heilshugar taki hún þessa ákvörðun, það er nú bara þannig. Ég held að hún geri þetta afskaplega vel og sé mjög hæf til þess að sinna þessu embætti,“ segir Bjarkey aðspurð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert