„Þá þarf að mynda nýja ríkisstjórn“

Þingflokksformaður Framsóknar segir að Katrín passi vel inn í hlutverk …
Þingflokksformaður Framsóknar segir að Katrín passi vel inn í hlutverk forseta Íslands. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór Birkisson

Þingflokksformaður Framsóknar treystir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fullkomlega til að verða forseti Íslands. Eðlilegast væri ef núverandi stjórnarflokkur ræddu fyrst saman ef Katrín byði sig fram.

Þetta segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, í samtali við mbl.is.

„Ef hún stígur fram og segir af sér þá þarf að mynda nýja ríkisstjórn. Mér finnst ósköp eðlilegt að þessir þrír flokkar sem hafa verið í samstarfi haldi áfram og taki samtalið – sjái hvert það leiðir,“ segir Ingibjörg.

Samstarfið gengið vel

Þingflokkur Framsóknar fundaði í gær um mögulegt framboð Katrínar og hver áhrifin af því gætu verið fyrir núverandi samstarf. Spurð hvort að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að halda samstarfinu áfram segir hún:

„Já, við höfum auðvitað verið í þessu samstarfi í sjö ár og það hefur gengið mjög vel. Flokkarnir þekkja hvorn annan ansi vel en ef þessi staða kemur upp, að Katrín Jakobsdóttir ákveður að stíga skrefið, þá er bara ósköp eðlilegt að við tökum samtalið við nýja forystu VG,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að ekkert liggi fyrir að svo stöddu og því myndi formlegt samtal um breytta ríkisstjórn ekki gerast nema Katrín byði sig fram.

Katrín myndi passa vel inn í hlutverkið

Hvernig hugnast þér mögulegt framboð Katrínar til forseta?

„Maður er auðvitað búinn að móta hana í hlutverkið og ég held að hún gæti orðið mjög öflugur leiðtogi fyrir Íslands hönd. Hún myndi passa vel inn í hlutverkið og ég treysti henni alveg fullkomlega,“ segir Ingibjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert