Diljá Mist: Jafnlaunavottun skaðvaldur

Diljá Mist hefur lagt fram frumvarp þess efnis að afnema …
Diljá Mist hefur lagt fram frumvarp þess efnis að afnema jafnlaunavottun. mbl.is/Hákon

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi fyrr í dag að tími væri kominn til að afnema lög um jafnlaunavottun.

Vakti hún athygli á málinu í kjölfar fregna um kynbundinn launamun á Landspítalanum, sem er stofnun sem er jafnlaunavottuð.

„Það sem vekur þó sérstaka athygli í þessari umfjöllun er auðvitað hið augljósa, sem er það að Landspítalinn er einn þeirra fjölmörgu stofnana sem greiðir fyrir hina alræmdu jafnlaunavottun lögum samkvæmt,“ sagði Diljá.

Svarið lægi í augum uppi

Hún sagði það vekja upp spurningar hvernig kynbundinn launamunur gæti viðgengist þrátt fyrir jafnlaunavottunina, en svarið lægi þó í augum uppi.

„Jafnlaunavottun er ekki bara kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum heldur hreinlega skaðvaldur. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa þessa dyggðaskreytingu geta hreinlega komist upp með að mismuna starfsfólki sínu, enda með það uppáskrifað að það sé allt upp á tíu hjá þeim í jafnlaunamálum. Þetta er alger hneisa.“

Enn ein ástæðan fyrir því að afnema „þennan óskapnað“

Með lögum um jafnlaunavottun var lögfest skylda fyrirtækja þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli til að öðlast jafnlaunavottun.

Diljá hefur lagt fram frumvarp um að jafnlaunavottun verði valkvæð en ekki skylda og segir að dæmi Landspítalans renni enn frekari stoðum undir það frumvarp.

„Þarna er komin enn ein ástæðan fyrir því að afnema þennan óskapnað og ég vona svo innilega að enn fleiri komi á þann vagn hér í þinginu. Það er kominn tími til að við gerum alvöruátak hér í að létta byrðum af atvinnulífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert