Þrengir stöðugt að bænum

Myndin sýnir vel hversu varnargarðarnir við Grindavík komu að góðum …
Myndin sýnir vel hversu varnargarðarnir við Grindavík komu að góðum notum og forðuðu stórtjóni. Ljósmynd/Otti Rafn Sigmarsson

Þeir íbúar Grindavíkur sem þurfa nauðsynlega að komast inn í bæinn í dag fá leyfi til þess sem og fyrirtækjaeigendur sem vinna við verðmætabjörgun.

„Við hjálpum því fólki sem þarf nauðsynlega að komast inn i bæinn að gera það en það er ekki mælst til þess að fólk dvelji næturlangt í bænum við þessar aðstæður. Þá heldur verðmætabjörgun hjá fyrirtækjaeigendum áfram eins og í gær,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Hann segir að enginn hafi dvalið í bænum síðastliðna nótt enda hafi hann verið lokaður öðrum en viðbragsaðilum.

Áttunda eldgosið á Reykjanesskaganum á undanförnum þremur árum hófst í fyrradag með þó nokkrum miklum látum.

Það dró úr virkni gossins undir kvöld á miðvikudag en hún hefur haldist stöðug og tók ekki miklum breytingum í nótt. Mesta virknin í eldgosinu við Sundhnúkagíga virðist vera við gíginn sem myndaðist í gosinu sem hófst 16. mars.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan er þokkaleg. Gosið virðist vera nokkuð stöðugt og lítur svipað út og í síðasta gosi. Vindáttin er hagstæð varðandi gasmengun en við getum haft áhyggjur af mengun frá hrauni vestan megin við bæinn. Það er samt ekki stórt áhyggjuefni,“ segir Úlfar.

Hraun umlykur bæinn

Krafturinn í gosinu til að byrja með var mikill og sá mesti sem hefur verið í gosunum hingað til á svæðinu og á tímabili óttuðust menn um skemmdir á enn frekari innviðum. Úlfar segir að það þrengist stöðugt að bænum.

„Það liggur hraun upp við varnargarðinn vestan megin við bæinn og þegar menn skoða loftmyndir af Grindavíkurbæ í dag þá sést hvar hraun hefur umlukið bæinn ef svo má segja.“

Úlfar segir að varnargarðarnir hafi sannað gildi sitt en menn viti ekki hvað gerist ef goshrinan á svæðinu haldi áfram.

„Nú bíðum við bara eftir að þetta gos klárist hvenær sem það verður og svo er að sjá hvað gerist í framhaldinu,“ segir Úlfar. Hann segir að leiðin út úr Grindavík sé ekki fær um Grindavíkurveg en það séu flóttaleiðir um Suðurstrandarveg og Nesveg, þótt hann sé torveldur. Úlfar segir að vinna við varnargarðana haldi áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert