Sigmundur um kynhlutlausa málfræði: „Þetta er bull“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnir meðal annars kynhlutlausa málfræði í grein …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnir meðal annars kynhlutlausa málfræði í grein sem hann birti í Morgunblaðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú finnst mér vera kominn sá tími að menn þurfi að taka afstöðu til þess hvort að þeim sé einhver alvara með öllum þessum yfirlýsingum um mikilvægi íslenskunnar og að vernda tungumálið.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is en í morgun birtist eftir hann grein í Morgunblaðinu þar sem hann segir að verið sé að fremja pólitísk skemmdarverk á íslenskri tungu.

Muni ýta undir skautun í samfélaginu

Í greininni skýtur hann föstum skotum að kynhlutlausri málfræði og segir að fólkið sem standi fyrir þessum breytingum geri sér ekki grein fyrir því að málfræðilegt kyn hafi ekkert með líffræðilegt kyn að gera.

„Þannig er t.d. orðið hetja kvenkyns hvort sem hetjan sem vísað er til er karlkyns eða kvenkyns. Það sama á við um lögreglu. „Hún“ handtók eftirlýstan glæpamann (kk.), jafnvel þótt lögregluþjónninn hafi verið karlkyns en glæpamaðurinn kvenkyns,“ segir í greininni.

Sigmundur segir að fátt muni ýta meira undir skautun í samfélaginu heldur en þessi breyting, sem hann segir Ríkisútvarpið og stjórnvöld leiða.

„Ég veit ekki um neitt sem væri betur til þess fallið að ýta undir svokallaða skautun í samfélaginu en það að fólk fari að tala á sitthvorn háttinn. Og að menn geti metið það út frá því hvernig einstaklingar tala hvort þau eru í rétta liðinu eða hinu liðinu,“ segir Sigmundur.

RÚV sé markvisst að eyðileggja tungumálið

Hann segir að í eðlilegu samfélagi þá þyrftu stjórnvöld ekki að stíga inn í en þegar að Ríkisútvarpið, sem hefur lagalega skyldu til þess að vernda íslenska tungu, er „farið markvisst að eyðileggja hana“ þá verði að spyrja sig hvort að grípa þurfi inn í.

Það virðist vera orðið að markmiði að snúa út úr íslenskri málfræði, að sögn Sigmundar, og hann segir að það kunni að vera tvær ástæður sem liggi þar að baki.

„Ég fæ ekki betur séð en það sé vegna þess – annars vegar eins og ég gat um í greininni – að menn geri sér ekki grein fyrir því hvernig málfræðin virkar, að kyn orða hefur ekkert með líffræðilegt kyn fólks að gera.

Hins vegar að það sé þarna einhver vilji til þess að skipta þjóðinni í fylkingar. Þá sem að hlýða og þá sem hlýða ekki, sem ég held að sé mjög óæskilegt,“ segir Sigmundur.

„Það vita öll að ekkert trúir þessu“

Í greininni nefnir Sigmundur að breytingarnar séu ekki til þess fallnar að gera tungumálið skiljanlegra, einfaldara eða fallegra. Nefnir hann nokkur dæmi. 

„Hvernig hljómar annars þessi nýlenska?: „Það vita öll að ekkert trúir þessu. Íslendingar standa saman öll sem eitt. Eitt fyrir öll og öll fyrir eitt.“ Ég vona að skemmtikraftar fari ekki að hrópa yfir salinn: „Eru ekki öll í stuði?!“,“ segir í greininni.

Spurður af hverju það sé sérstakt vandamál ef að menn vilja nota kynhlutlausa málfræði, ef það nær betur utan um ákveðinn hóp fólks, segir Sigmundur að þetta sé ekki til þess að sameina þjóðina.

„Því þetta er ekkert nema umbúðarmennska, þetta er bull. Þetta er til þess fallið að sundra þjóðinni, ekki sameina hana – að rugla málfræðinni og fólk geti metið eftir hvernig fólk talar hvar það stendur. Í öðru lagi hef ég talið að þeir sem eru mjög áfram um kynsegin mál og allt það – jafnrétti allra eftir eigin skilgreiningu – ættu að fagna umfram alla málfræðireglum íslenskunnar. Þær málfræðireglur skilgreina fólk ekki eftir kyni, heldur bara kyni orðanna,“ segir hann.

Hægt er að lesa greinina hans í Morgunblaðinu sem kom út í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert