Friðurinn keyptur dýru verði

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir ógæfu Rússa fólgna í sterkri trú þessarar öflugu þjóðar að henni farnist ekki vel nema hinn sterki leiðtogi haldi um stjórnartaumanna. Segir hann það ekki þurfi að vera svo í öflugu lýðræðissamfélagi. Guðni segir í samtali við Andrés Magnússon í Dagmálum mbl.is að þjóð sem þurfi alltaf sterkan leiðtoga sé ekkert endilega þjóð á réttri braut.

Guðni segir Pútín hafa notað og misnotað sögu Rússlands til þess að hamra á því að voða beri að höndum ef þjóðin fylki sér ekki um hinn sterka leiðtoga. „Hann segir að standi þjóðin ekki saman sé voðinn vís. Sá sem ekki er með mér er óvinur okkar allra.“

Þá segir Guðni sinn rússneska kollega nota söguna til þess að gera lítið úr úkraínskri þjóð, úkraínskri menningu, úkraínskri tungu og úkraínskri sögu. Pútín haldi því fram að það sé allt saman tilbúningur og í Úkraínu búi bara fólk sem eigi að vera undir verndarvæng hins rússneska veldis.

Guðni Th. Jóhannesson segir í samtali við Andrés Magnússon að …
Guðni Th. Jóhannesson segir í samtali við Andrés Magnússon að Vladimír Pútín hafi notað og misnotað sögu Rússlands til þess að hamra á því að voða beri að höndum ef þjóðin fylki sér ekki um hinn sterka leiðtoga. mbl.is/Hallur Már

„Þess vegna hygg ég að ef menn réttilega vilja og vona að friður komist á í Evrópu, að átökum í Úkraínu linni, þá verði mönnum ekki ágegnt í þeirri von til langframa ef menn líta svo á að það verði einfaldlega að lúta vilja þess sem ræður í Kreml hverju sinni. Friður sem er keyptur því verði er svo sannarlega dýru verði keyptur og gjaldið mun hækka í hvert skipti sem þú gefur eftir af því tagi,“ segir forseti Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert