„Við verðum tilbúin þegar kallið kemur“

Kristrún Frostadóttir segir að Samfylkingin sé klár í kosningar.
Kristrún Frostadóttir segir að Samfylkingin sé klár í kosningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er fólksins í landinu að ákveða hver næsti forseti landsins verður en ekki stjórnmálamanna. Samfylkingin mælist með yfir 30% fylgi í nýjustu könnun Gallup og er reiðubúin í kosningar ef þær er fram undan.

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

„Öll vinnan sem við höfum verið að vinna nú að undanförnum mánuðum snýr að því að gera okkur tilbúin fyrir næstu ríkisstjórn og Samfylkingin er tilbúin. Ég held og vona að þær tölur sem við erum að sjá í könnunum endurspegli það að fólk sér að við erum að taka þetta alvarlega.

Við viljum koma fram sem raunhæfur valkostur með stjórnfestu inn í næstu ríkisstjórn, þannig við verðum tilbúin þegar kallið kemur,“ segir Kristrún aðspurð um það hvort að Samfylkingin sé klár í kosningar og þá mögulega í ríkisstjórn í kjölfarið.

Komið gott hjá ríkisstjórninni

Miklar líkur eru nú taldar á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta og er þá framtíð ríkisstjórnarinnar óljós. Spurð um atburðarás síðustu daga og mögulegt framboð Katrínar segir Kristrún að það sé ekki hennar að tjá sig um forsetakosningar.

„Það er mín skoðun að það er fólkið sem velur forsetann, ekki stjórnmálaflokkar eða fólk á Alþingi,“ segir Kristrún.

En vilt þú sjá þingkosningar ef Katrín fer fram?

„Þetta er auðvitað að verða komið gott hjá þessari ríkisstjórn og það hefur verið staðan í fjölda mánaða, alveg óháð því hvað mun mögulega gerast á næstu dögum eða vikum. Þetta er í þeirra höndum akkúrat núna og það er ekki tímabært að tjá sig neitt um það,“ segir Kristrún og ítrekar að það sé í höndum fólksins í landinu að velja sér forseta.

„Samfylkingin er að vinna vinnuna sína. Við erum einbeitt í okkar verkefnum og verðum tilbúin þegar kallið kemur ef að það reynir á það núna fljótlega.“

Fylgið mælist yfir 30%

Í þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í gær kemur fram að rúm­lega 30% kjós­enda myndu kjósa Sam­fylk­ing­una. Fylgi flokks­ins eykst milli kann­ana en í fe­brú­ar sögðu 28,2% svar­enda að þeir myndu kjósa Sam­fylk­ing­una. Flokk­ur­inn myndi þá fá 21 þing­mann, og ekki yrði hægt að mynda tveggja eða þriggja flokka stjórn án aðkomu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Kristrún segir frábært að sjá þessar tölur og að finna fyrir stuðningum. Hún segir þó kannanir aðeins vera kannanir.

„Við erum að koma úr annarri fundarferð um atvinnu- og samgöngumál. Við heimsóttum 180 fyrirtæki í byrjun árs og vorum með 25 opna fundi í kringum landið, verðum núna með flokksstjórnarfund á Laugarbakka 20. apríl þar sem við erum að fara kynna þetta útspil [um samgöngu- og atvinnumál] og funda með okkar fólki. Þannig kannski tengist þetta því,“ segir Kristrún spurð um hvað útskýri fylgisaukninguna.

Samfylkingin skýr valkostur í næstu ríkisstjórn

Hún segir það ekki vera hennar að útskýra fylgið en segir þó að Samfylkingin sé búin að vera í virku samtali við fólkið í landinu og einnig hafi Samfylkingin verið að vinna mikilvæga undirbúningsvinnu í ýmsum málaflokkum.

„Við tökum þessu mjög alvarlega, að vera skýr valkostur í næstu ríkisstjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert