Guðlaugur Þór býður sig fram í annað sætið

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is
GUÐLAUGUR Þór Þórðarson hefur ákveðið að sækjast eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri flokksins í haust.

"Ég hef unnið fyrir Reykvíkinga nú í átta ár sem borgarfulltrúi og í fjögur ár sem þingmaður og gegnt fjölmörgum trúnaðarembættum fyrir flokkinn á þeim um það bil tuttugu árum sem ég hef starfað í stjórnmálum. Menn þekkja mínar áherslur. Ég hef mikið látið mig varða málefni fjölskyldunnar í víðum skilningi og komið fram með hugmyndir í skattamálum og húsnæðismálum."

Guðlaugur Þór sagðist einnig hafa látið sig varða utanríkismál, sjávarútvegs- og samgöngumál, umhverfis- og orkumál, málefni aldraðra og ýmislegt fleira.

"Ég tel mörg spennandi verkefni framundan og mikilvægt að gæta hagsmuna Reykvíkinga í nútíð og framtíð og ég tel að sú reynsla sem ég hef á vettvangi borgarstjórnarmála muni reynast mér vel til þess."

Hann sagðist hafa lýst því yfir fyrir ári síðan þegar hann hefði ákveðið að sækjast ekki eftir efstu sætunum á lista Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar að hann myndi sækjast eftir einu af efstu sætunum í prófkjörinu nú. "Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar og hef áhuga á því að taka að mér fleiri verkefni á sviði stjórnmálanna og aukna ábyrgð. Ég tel það einnig gott fyrir flokkinn að fulltrúar nýrra kynslóða verði í forystusveit hans."

Guðlaugur Þór sagði að það skipti engu máli eftir hvaða sæti hann sæktist í prófkjörinu, því hann myndi alltaf þurfa að etja kappi við vini og samherja. "Það er eðli prófkjara, en við höfum sýnt það sjálfstæðismenn í undanförnum prófkjörum að þessar keppnir hafa verið drengilegar og heiðarlegar og hafa styrkt mjög flokkinn og ég á ekki von á því að það verði neitt öðru vísi nú," sagði Guðlaugur að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert