Halldór Blöndal sækist ekki eftir endurkjöri

Halldór Blöndal
Halldór Blöndal Halldór Kolbeins

Halldór Blöndal alþingismaður mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi í kosningunum á vor. Þetta tilkynnti hann á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar í gærkvöldi.

"Mér finnst fara vel á því að ég lýsi því yfir hér í mínu gamla félagi, Sjálfstæðisfélagi Akureyrar, að ég muni ekki gefa kost á mér til endurkjörs í alþingiskosningunum í vor. Hér á Akureyri hóf ég mín stjórnmálaafskipti og hef tekið þátt í kosningabaráttunni í öllum alþingiskosningum síðan 1963, fyrst sem pólitískur blaðamaður og erindreki, en síðan 1971 sem frambjóðandi og síðar alþingismaður," sagði Halldór.

Hann sagði að þetta væri orðinn langur tími og margs að minnast, margra góðra vina, baráttufélaga og stuðningsmanna, sem hann minntist með hlýhug og þakklæti.

"Starf stjórnmálamannsins er fjölbreytilegt og krefjandi, oftast skemmtilegt en getur orðið lýjandi þegar á móti blæs og maður kemst lítið áleiðis með þau mál sem maður er að berjast fyrir. Þegar ég lít til baka standa auðvitað nokkur mál upp úr, sem miklu skiptu fyrir einstök byggðarlög eða kjördæmið í heild," sagði Halldór.

Hann nefndi í því sambandi jarðgöngin til Ólafsfjarðar og göngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar, "sem eru líftaug þessara byggðarlaga. Það mál hefði aldrei náðst fram án fulltingis Davíðs Oddssonar. Síðast en ekki síst nefni ég Háskólann á Akureyri. Sverrir Hermannsson var búinn með fjárlagakvótann, sem menntamálaráðuneytið hafði, en háskólinn stóð út af. Þá króaði ég Þorstein Pálsson fjármálaráðherra af úti í horni í efri deild fyrir 3. umræðu fjárlaga og sagði að háskólinn yrði að fá fjárveitingu og það varð."

Halldór sagði að hér væri ekki um skyndiákvörðun að ræða. Hann og Kristrún kona hans hefðu tekið hana fyrir síðustu alþingiskosningar. "Hún hefur staðið á bak við mig í mínu stjórnmálastarfi. Sá árangur sem ég hef náð er því að þakka að ég hef átt góða konu," sagði Halldór.

Í hnotskurn
» Halldór var kjörinn á þing 1979 en hafði tvö kjörtímabilin þar á undan verið varamaður.
» Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra árin 1991-1995 og samgönguráðherra 1995-1999.
»Hann var f orseti Alþingis frá 1999-2005 og hefur síðan þá verið formaður utanríkismálanefndar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert