Prófkjör í Norðausturkjördæmi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram á morgun, laugardaginn 25. nóvember. Kosið er á tuttugu og tveimur stöðum víðsvegar í kjördæminu. Kjörstaðir eru opnir mislengi en þeir sem lengst eru opnir eru opnir frá klukkan 9 til klukkan 18 um kvöldið.

Níu manns gefa kost á sér í prófkjörinu, sex karlar og þrjár konur. Eftirtaldir eru í kjöri: Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Seyðisfirði, Björn Jónasson innheimtustjóri, Fjallabyggð, Kristinn Pétursson framkvæmdastjóri, Langanesbyggð, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Akureyri, Ólöf Nordal framkvæmdastjóri, Egilsstöðum, Sigríður Ingvarsdóttir verkefnisstjóri, Fjallabyggð, Sigurjón Benediktsson tannlæknir, Húsavík, Steinþór Þorsteinsson háskólanemi, Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson læknir, Akureyri.

Utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hefur staðið yfir frá 13. nóvember síðastliðnum. Þá hefur kjörið þegar farið fram í Grímsey. Það fór fram á miðvikudag í þessari viku, þar sem ekki þótti tækt að hætta á að hafa það á sama tíma og annars staðar í kjördæminu ef veður gerði ókleift að ná í kjörgögn þaðan.

Talning fer fram á Akureyri á sunnudag, daginn eftir prófkjörið, þar sem safna þarf kjörgögnum saman alls staðar að úr kjördæminu. Það er tímafrekt þar sem kjördæmið er mjög víðfeðmt og fara þarf um 1.500 kílómetra leið til þess að ná í öll kjörgögnin. Gert er ráð fyrir að fyrstu tölur liggi fyrir um sexleytið á sunnudag, samkvæmt upplýsingum kjörstjórnar.

Í prófkjörinu mega kjósa allir félagsbundnir sjálfstæðismenn í kjördæminu, sem þar eru búsettir og náð hafa 16 ára aldri. Þátttaka er ennfremur heimil þeim stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins sem undirrita stuðningsyfirlýsingu við hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert