Guðjón Arnar segir kjördæmafélög ákveða framboðslista

Margrét Sverrisdóttir kemur á landsþing Frjálslynda flokksins um helgina.
Margrét Sverrisdóttir kemur á landsþing Frjálslynda flokksins um helgina. mbl.is/Sverrir

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að hann vildi ekki lýsa yfir stuðningi við Margréti Sverrisdóttur í efsta sæti framboðslistans í Reykjavíkur kjördæmi suður.

Guðjón Arnar sagði að röðun á listann væri á verksviði kjördæmafélags. Setji það Margréti efst, muni hann styðja það.

Margrét hlaut ekki kosningu sem varaformaður Frjálslynda flokksins í gær og hefur gefið til kynna að hún íhugi úrsögn úr flokknum. Eitt sem skipti máli varðandi þá ákvörðun sé það hvort hún fái að leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Margrét sagði á landsfundi Frjálslynda flokksins í gær, þegar hún fór yfir þau málefni, sem hún vildi beita sér fyrir, að hún vildi taka fastar á málum innflytjenda en gert hefði verið hingað til og bregðast þurfi skjótt við til að leita lausna á þeim vanda sem óheft flæði vinnuafls hafi þegar skapað.

„Við megum hins vegar aldrei falla í þá gryfju að taka á málefnum innflytjenda af óbilgirni eða fordómum gagnvart ákveðnum hópum útlendinga. Ég vil standa vörð um að flokkurinn hætti sér ekki út í slíkt fúafen," sagði Margrét.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert