Kolbrún Stefánsdóttir kjörin ritari Frjálslynda flokksins

Blaðamenn ræða við Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, á …
Blaðamenn ræða við Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, á landsfundinum í gær. Magnús Þór Hafsteinsson og Margrét Sverrisdóttir standa hjá. mbl.is/Árni Sæberg

Kolbrún Stefánsdóttir var kjörin ritari Frjálslynda flokksins á landsfundi flokksins í gær. Tvær aðrar konur voru í kjöri.

Í ljós kom, eftir að tölur höfðu verið birtar á fundinum í kjöri varaformanns, að ekki var búið að telja atkvæði úr einum kjörkassa að sögn Magnúsar Reynis Guðmundssonar, framkvæmdastjóra flokksins. Breyttust því lokatölurnar frá því áður hafði verið tilkynnt en úrslitin voru þau sömu.

Alls voru 811 atkvæði greidd í varaformannskjörinu. Magnús Þór Hafsteinsson fékk 460 atkvæði eða 56,7% en Margrét Sverrisdóttir fékk 351 atkvæði eða 43,3%.

Margrét hefur boðað stuðningsmenn sína á fund annað kvöld til að ræða stöðu mála en hún gaf til kynna, eftir að úrslitin í kjörinu lágu fyrir, að hún íhugaði að yfirgefa flokkinn.

Á landsfundinum fór fram kosning í fjármálaráð og miðstjórn. Flest atkvæði í fjármálaráð fékk Daníel Helgason en hann er jafnframt formaður ráðsins. Einnig voru kjörin Erna Ingólfsdóttir, Sverrir Hermannsson, Eyþór Sigmundsson og Matthías Sveinsson.

Í miðstjórn fékk Grétar Mar Jónsson flest atkvæði en auk hans voru kjörin í miðstjórn Pétur Bjarnason, Óskar Þór Karlsson, Ásgerður Jóna Flosadóttir, Hanna Birna Jóhannesdóttir og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert