EES-samningurinn nýttur til að hafa áhrif á Evrópusambandið

Evrópunefndin kynnir skýrslu sína í dag.
Evrópunefndin kynnir skýrslu sína í dag. mbl.is/Kristinn

Nefnd um Evrópumál telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES samningurinn) hafi staðist tímans tönn og að hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og Evrópusambandsins (ESB) byggist á. Þá segir í skýrslu nefndarinnar að breytingar innan ESB, aukið vægi þings þess og fjölgun aðildarríkja hafi ekki hróflað við samningnum og að íslensk yfirvöld hafi hrundið ákvörðunum vegna samningsins skipulega í framkvæmd og að eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn hafi orðið virkir þátttakendur í framkvæmd hans gagnvart Íslandi.

Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að hún sé sammála um að æskilegt sé að samvinna Íslands við Evrópusambandið verði aukin á ýmsum sviðum og að öflugri þátttöku Íslendinga í nefndarstarfi verði haldið áfram þannig að hægt verði að nýta þau tækifæri sem gefist til að hafa áhrif á stefnumótun innan ESB.

Þá segir að það sé mat nefndarinnar að framkvæmd EES og Schengen samninganna hafi almennt gefist vel og að ágreiningsefni hafi verið leyst innan ramma þeirra. Einnig hafi tekist vel að gæta hagsmuna Íslendinga þegar litið sé til þátttöku í nefndum, aðlagana og við stækkun sambandsins.

Nefndin var skipuð af forsætisráðherra til að kanna framkvæmd EES-samningsins, önnur tengsl Íslands og Evrópusambandsins, sem og ýmis álitamál tengd hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt skipunarbréfinu átti nefndin m.a. að kanna hvort og þá hvers konar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland, auk þess sem skilgreind yrði staða Íslands miðað við hinn nýsamþykkta stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert