VG leggur fram áætlun um að útrýma fátækt á Íslandi

Forsvarsmenn VG kynna áætlunina í dag.
Forsvarsmenn VG kynna áætlunina í dag. mbl.is/Sverrir

Frambjóðendur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs kynntu í dag aðgerðaáætlun flokksins til að útrýma fátækt á Íslandi en flokkurinn segist leggja höfuðáherslu á að bæta og jafna kjörin og útrýma fátækt.

Í áætluninni segir, að auka þurfi ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og taka til gagngerrar endurskoðunar samspil almannatrygginga, lífeyrissjóða og skatta. Það sé hlutverk velferðarsamfélagsins að tryggja jöfnuð. Þess vegna leggi VG áherslu á gjaldfrjálsa velferðarþjónustu, aðgengilega landsmönnum öllum.

Þá segir, að á undanförnum árum hafi gjaldtaka í menntakerfinu og í heilbrigðisþjónustu verið aukin jafnt og þétt og nú sé svo komið að tekjulítið fólk eigi þess ekki kost að nýta sér sjálfsagða grunnþjónustu. Þá hafi verið dregið úr félagslegri aðstoð á ýmsum sviðum og það hafi einnig aukið ójöfnuð í þjóðfélaginu.

Í áætlun VG segir, að flokkurinn áformi ekki að auka almennar skattaálögur frá því sem verið hafi á undanförnum árum. Hins vegar sé nauðsynlegt að endurskoða dreifingu skattbyrðarinnar. Endurskoða þurfi hvernig sameiginlegum fjármunum þjóðarinnar sé ráðstafað.

Heimasíða VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert