Meirihluti hlynntur hertum reglum um landvist útlendinga

Frá fundi um málefni útlendinga á Íslandi.
Frá fundi um málefni útlendinga á Íslandi. mbl.is/Þorkell

Rúmlega helmingur þjóðarinnar, eða 56,2%, er hlynntur því að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið dagana 3. til 9. apríl. Þar af segjast 26,4% vera mjög hlynnt því en 29,8% segjast frekar hlynnt því.

13% segjast hvorki vera hlynnt né andvíg því að reglur verði hertar en 18,2% segjast frekar andvígir því og 12,5% segjast mjög andvígir því.

Yfir 70% þeirra sem hyggjast kjósa Framsóknarflokkinn í alþingiskosningunum í vor vilja að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að hér á landi, samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup. Þetta er hærra hlutfall en hjá Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Vinstrihreyfingunni-grænu framboði.

Fleiri flokkar eru ekki tilgreindir í könnuninni heldur er Frjálslynda flokknum, Íslandshreyfingunni og Baráttusamtökunum skipað undir einn hatt, þ.e. hvaða „annan flokk" fólk ætlar að kjósa. Af þeim sem ætla að kjósa „annan flokk" eru 68,6% hlynntir því að strangari reglur verði settar sem er aðeins 2% lægra hlutfall en hjá þeim sem segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í vor.

Samkvæmt könnuninni er lítill munur á afstöðu kynjanna til málsins en athyglisvert er að stuðningur við strangari reglur er mestur í Norðvestur (72,4%) og Suðurkjördæmi (64,5%).

Um var að ræða tilviljunarúrtak úr þjóðskrá en í því voru 940 manns á aldrinum 18 til 75 ára. Svarhlutfall var 61,7%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka