24 nýir þingmenn

Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir, sem eru fyrir miðri …
Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir, sem eru fyrir miðri mynd, eru nýir þingmenn VG. mbl.is/Ómar

Af 63 þingmönnum, sem kosnir voru á þing í gær, eru 24 nýir. Flestir nýliðarnir koma úr Suðvesturkjördæmi, sex talsins en í Reykjavík norður og í Suðurkjördæmi voru kjörnir 5 nýir þingmenn. Níu þingmenn, sem sóttust eftir áframhaldandi þingsæti, komust ekki inn á þing og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sem sóttist eftir þingsæti, hlaut ekki kjör. Um tíma í morgun leit þó út fyrir að hann næði kjöri sem uppbótarþingmaður.

Í Reykjavík norður eru nýir þingmenn Guðfinna S. Bjarnadóttir úr Sjálfstæðisflokki, Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson úr VG og Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ellert B. Schram úr Samfylkingu; Ellert hefur raunar setið áður á þingi.

Í Reykjavík suður voru þau Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, Álfheiður Ingadóttir, VG, og Jón Magnússon, Frjálslynda flokknum, kjörin ný á þing.

Í Suðvesturkjördæmi koma Gunnar Svavarsson og Árni Páll Árnason, Samfylkingu og Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sjálfstæðisflokki og Ragnheiður Ríkharðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki ný inn.

Í Norðvesturkjördæmi eru Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson, Samfylkingu, nýir þótt Karl hafi raunar setið á þingi áður. Kristinn H. Gunnarsson var einnig kjörinn þingmaður fyrir Frjálslynda flokkinn en hann var áður þingmaður Framsóknarflokks.

Í Norðausturkjördæmi eru nýir þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki og Höskuldur Þór Þórhallsson, Framsóknarflokki.

Í Suðurkjördæmi eru Árni Johnsen og Björk Guðjónsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Atli Gíslason, VG, Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki og Grétar Mar Jónsson, Frjálslynda flokknum, nýir en Árni hefur setið áður á þingi.

Þeir þingmenn, sem sóttust eftir áframhaldandi þingsæti en fengu ekki, eru Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson, þingmenn Framsóknarflokks, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Mörður Árnason, þingmenn Samfylkingar, Drífa Hjartardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Sigurjón Þórðarson, Magnús Þór Hafsteinsson og Valdimar Leó Friðriksson, þingmenn Frjálslynda flokksins. Þá náði Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokks, ekki kjöri á Alþingi en hann er iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sat sem slíkur á þingi en var ekki kjörinn þangað í síðustu kosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert