Svandís stefnir á 1. sætið í Reykjavík

Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík
Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík mbl.is

Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs býður sig fram í 1. sæti fyrir alþingiskosningarnar í Reykjavík en forval verður haldið þar á vegum VG í Reykjavík þann 7. mars. Forvalið er opið öllum félögum í VG í Reykjavík.

„Við þurfum að vera fleiri til að lyfta málstað, stefnu og hugsjónum VG upp í ljósið. VG er sterkasta rödd félagshyggju, kvenfrelsis og grænna sjónarmiða á Íslandi. Einmitt nú er mikilvægt að Vinstri græn séu sterkari en nokkru sinni fyrr, - einmitt vegna kreppunnar. Vinstri græn hafa kjark og málefnalegan styrk til þess að bjóða íhaldinu birginn. Nú þarf að verja almenning í nýju þjóðfélagi miklu lakari lífskjara en áður,“ segir Svandís Svavarsdóttir í yfirlýsingu.

Hún segir að VG tali máli þeirra sem misst hafa vinnuna, þess fólks sem stendur höllum fæti og er að missa eignir sínar og framfærslu. Svandís segir VG hafa kjark til að ráðast gegn sjónarmiðum peningaaflanna.

„Við erum ekki flækt í net hagsmuna og fyrirgreiðslu og getum þess vegna talað skýrt og gengið hreint til verks,“ segir Svandís.

Svandís Svavarsdóttir er fædd árið 1964. Hún starfaði að réttindamálum heyrnarlausra frá 1992-2006, við rannsóknir og kennslu í táknmálsfræðum og túlkun við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og Háskóla Íslands. Svandís hefur verið borgarfulltrúi frá vorinu 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert