Vilja beint samband milli kjósenda og frambjóðenda

Frá blaðamannafundi forsvarsmanna L-listans í dag
Frá blaðamannafundi forsvarsmanna L-listans í dag mbl.is/Árni Sæberg

 „Við höfum ákveðið að ætla ekki að þiggja styrki frá einkaaðilum, fyrirtækjum eða neinu því þá er lýðræðið í hættu. Við ætlum ekki að setja eitthvert þak, 7,5 milljónir á mann, heldur standa saman [...]. Við ætlum ekki að láta peninga frá öðrum segja okkur hvernig við eigum að tala,“ sagði sr. Þórhallur Heimisson þegar hann og Bjarni Harðarson kynntu L-listann í dag.

Bjarni sagði að L-listinn vildi brjóta upp gamla skipulagið með því að bjóða fram lista án þess að stjórnmálaflokkur standi bak við hann, bjóða upp á milliliðalaust samband milli kjósenda og frambjóðenda. 

„Við teljum að til frambúðar þurfi að breyta kosningakerfinu og höfum ákveðnar hugmyndir um það. Við erum raunir ekki einir um að vilja fylgja því eftir heldur teljum við mikilvægt að inn á komandi Alþingi verði einhverjir utan gömlu stjórnálaflokkanna til að fylgja þessum hugmyndum um breytingar á kerfinu eftir. Það er til þess verks sem við bjóðum okkur fyrir utan líka að koma að endurreisn íslensks efnahagslífs og endurreisn íslensks samfélags.“

Þórhallur sagði að strax í haust hafi fólk tekið að streyma til hans með áhyggjur og kvíða varðandi framtíðina og hafi það ekki minnkað. Síðan í október hafi verið talað um fjölskyldurnar í landinu, atvinnulífið og endurreisn en þrátt fyrir að tvær ríkisstjórnir með fjórum flokkum hafi verið við völd hafi ekkert gerst. Þannig hafi það gerst að stór hópur fólks byrjaði að ræða saman um hvað hægt væri að gera.

Þórhallur talaði um að L-listinn byggði á ákveðnum grunngildum. Listinn vilji endurreisn fjölskyldna og heimila í landinu, endurreisn lýðræðisins, að þingmenn standi og falli með sínum málum og séu sjálfum sér samkvæmir. Listinn vilji sjá endurreisn atvinnulífsins en víða erlendis setji stjórnvöld mikla peninga í atvinnuskapandi verkefni. Hér á landi sé sífellt verið að tala um það en eina raunverulega dæmið sé Tónlistarhúsið þar sem Reykjavíkurborg og menntamálaráðherra hafið tekið höndum saman um að halda framkvæmdunum áfram. 

Þá vilji L-listinn varðveita lýðræðið á traustum grunni með því að hafna aðild að ESB. „Það er eins og eina svarið gagnvart hruni, atvinnuleysi og vonleysi, fjórföldun á fólki sem leitar aðstoðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, sé að ganga í ESB,“ sagði Þórhallur. „Við teljum að lausnin felist í fullveldinu, lýðræðinu, að við stöndum saman.“ Þórhallur sagði listann hafna öllum öfgastefnum og vilja fjölbreytt samfélag þar sem allir geti unað við sitt. „Nýir Íslendingar, gamlir Íslendingar, sama hvaða litur, trú og skoðanir, að við getum öll staðið saman.“

Bjarni sagði að verið væri að vinna að listauppstillingum í öllum kjördæmum en uppstilltur listi væri ekki tilbúinn. „Það eru 126 einstaklingar sem þarf á lista, ég held að ég fari nær með það að við erum komin með nöfn upp á hálfa þá tölu sem er viðunandi miðað við tímasetninguna. Víðast í flestum kjördæmunum er ákveðin umræða um hverjir munu verða í efstu sætunum. Oddvitar listanna hafa úrslitaatkvæði um það hverjir sitja á lista hjá þeim. [...] Við viðurkennum alveg að við getum ekki beitt sýndarlýðræði við að raða þessum listum upp en við teljum að það lýðræði sem flokkar bjóða upp á við uppröðun listanna, hvort sem það eru prófkjörsuppstillingar eða annað, sé mikil afskræming á raunverulegu lýðræði fólksins. Meira og minna er það ýmist lýðræði peninganna eða lýðræði flokksklíkunnar. Við munum bjóða fram þessa lista,og hvetjum til þess að aðrir fari sömu leið. Lykillinn að lýðræðinu liggur í þingkosningunum sjálfum. Það þarf mjög sterk pollýönnugler til að sjá stjórnmálaflokk á Íslandi sem lýðræðislegan flokk.“

Bjarni sagði listann telja að persónukjöri þurfi að koma á. Hann sagði einfalda leið vera að gera landið að einu kjördæmi en kjördæmaskipunin nú væri afskræming á því að þingmenn séu þingmenn svæða. Næði L-listinn þeim árangri að komast inn á þing yrði þingflokkur myndaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert