Tekist á um stjórnlagaþing

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Skiptar skoðanir voru á meðal þingmanna á Alþingi í dag um fyrirhugað stjórnlagaþing og vildi Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meina að áætlaður kostnaður væri of mikill.

Málshefjandi var Birgir Ármannsson, flokksbróðir Sigurðar Kára, sem sagði hafa komið fram í nefnd um stjórnskipunarmál að áætlaður kostnaður við stjórnlagaþing - miðað við forsendur um stjórnlagaþing sem fjármálaráðuneytið hefði unnið út frá - yrði 1.176,5 milljónir króna, að því gefnu að það stæði yfir í 10 mánuði, 1.731,6 milljónir, ef það stæði yfir í 18 mánuði, eins og gert væri ráð fyrir, en 2.148 milljónir ef það stæði yfir í 24 mánuði.

Að mati Birgis eru þetta talsvert háar tölur og umtalsvert hærri en hann gerði ráð fyrir.

Því beindi hann þeirri fyrirspurn til Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hvort þessar upplýsingar um áætlaðan kostnað hefðu breytt einhverju í afstöðu hans til stjórnlagaþingsins og hvort hinn áætlaði kostnaður væri réttlætanlegur.

Ræðst af afgreiðslu þingsins

Í andsvari sínu sagði Lúðvík málið til meðferðar í stjórnarskrárnefnd, hver hinn endanlegi kostnaður yrði myndi alfarið ráðast af því hvernig næsta þing afgreiddi lög um stjórnlagaþing og útfærði þau.

Spurði hann Bjarna á móti hvort þessi upphæð hefði áhrif á afstöðu hans til stjórnlagaþings og hvort hann myndi beita sér fyrir því að þingið sitji skemur en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Valgerður Sverrisdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni hafa borið á glampa í augum sjálfstæðismanna þegar álitinu um áætlaðan kostnað var dreift í nefnd, enda gæti kostnaðurinn orðið gott vopn í baráttunni gegn stjórnlagaþinginu.

Gerði Valgerður grein fyrir þeirri afstöðu sinni að stjórnarskráin ætti að setja valdinu mörk og að mikilvægt væri að fólkið í landinu kæmi að málum.

Sambærilegt rekstrarkostnaði Alþingis

Kostnaður við rekstur Alþingis væri um 2 milljarðar króna á ári. Því væru þetta háar upphæðir, en að á móti kæmi að erfitt væri að meta kostnað útfrá litlum upplýsingum um stjórnlagaþingið.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, skaut föstum skotum að Bjarna og sagði að ef sjónarmið hans líkra hefðu ráðið för á 19. öld hefðu ýmsar þær lýðræðisumbætur sem mest væri um vert ekki gengið eftir, enda kostnaður við þær verulegur.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi hins vegar kostnaðinn harðlega og sagði menn yrðu að hljóta að velta því fyrir sér hvort réttlætanlegt væri að eyða fjármunum „í þetta ævintýri“.

1.700 til 2.000 milljónir króna úr vasa skattgreiðenda væri mikið fé þegar ríkissjóður væri rekinn með 158 milljarða halla.

Menn hlytu að þurfa að forgangsraða eftir mikilvægi mála og frekar að einbeita sér að því að aðstoða heimili og fyrirtæki.

Allir þyrftu að gera sér grein fyrir því að góðærið væri búið, kominn væri tími til að einbeita sér að því sem máli skipti.

Stjórnlagaþing mjög mikilvægt 

Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, lýsti yfir þeirri afdráttarlausu skoðun sinni að mjög mikilvægt væri að sett yrði stjórnlagaþing hið fyrsta.

Aðgreina þyrfti löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald með skýrari hætti en nú væri.

Alþingi hefði ekki risið undir því að breyta stjórnarskránni sem nokkru nemi. Skráin væri mjög gamaldags og skoða þyrfti miklu betur hvernig ætti að aðgreina valdaþættina.

Taldi  hún endurskoðun stjórnarskrárinnar geta haft mikinn sparnað í för með sér.

Hlutfallið verði helst 50 prósent

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, taldi nauðsynlegt að styrkja þingið.

Hans mat væri að ef 31 maður sinnti eingöngu störfum við stjórnlagaþing i hálft ár ætti kostnaður að vera mun lægri en þessar tölur segðu til um.

Pétur vék einnig að 79. grein stjórnarskrárinnar, sem þyrfti að breyta til að breytingar á skránni væru ekki svo þunglamalegar. 

Hans skoðun væri að það yrði lítilsvirðing við stjórnarskrána ef 25 prósent atkvæðabærra mann þyrfti til að samþykkja stjórnarskrábreytingu.

Helst þyrfti hlutfallið að vera 50 prósent, minnst 33 prósent.

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.
Lúðvík Bergvinsson.
Lúðvík Bergvinsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert