Ásgerður hættir í Frjálslynda flokknum

Ný stjórn Frjálslynda flokksins var kjörin á landsfundi hans nýverið: …
Ný stjórn Frjálslynda flokksins var kjörin á landsfundi hans nýverið: Hanna Birna Jóhannsdóttir, Guðjón A. kristjánsson og Ásgerður Jóna Flosadóttir. mbl.is/Gunnlaugur Árnason

Ásgerður Flosadóttir, varaformaður Frjálslynda flokksins, hefur sagt sig úr flokknum og um leið öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Segir hún í tilkynningu að ástæðan sé sú að hún sjái ekki neinn vilja til breytinga innan flokksins. Telur hún að flokkur sem geti ekki haft stjórn á innri málefnum sé ekki nægjanlega trúverðugur til að taka þátt í þeirri endurreisn sem sé framundan í íslensku þjóðfélagi. Rúm vika er liðin frá því Ásgerður var kjörin varaformaður Frjálslynda flokksins.

„Fyrir nokkru  var ég kjörin varaformaður Frjálslynda flokksins. Ég  hef  starfað fyrir Frjálslynda flokkinn af heilindum frá því að ég gekk í flokkinn  á haustmánuðum 2006 og reynt að fá flokksfólk til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.

Ég hef gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn m.a. verið formaður Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum, setið í miðstjórn  flokksins og einnig skipaði ég  annað sæti flokksins við þingkosningar 2007  í Reykjavík  Norður.   Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar verða að bera virðingu fyrir sínum innri reglum og lögum og rækta af samviskusemi og koma fram við félaga sína af virðingu en á það hefur skort í FF.
 
 Ég hef gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að starfsmannamálum og mörgu fleiru í æðstu yfirstjórn flokksins. Nú er hins vegar ljóst að formaður flokksins ætlar sér ekki að að gera nauðsynlegar breytingar á starfsmannahaldi flokksins.    Þá hefur því verið hafnað að standa löglega að uppstillingu á framboðslista flokksins í Suðvestur kjördæmi en ég hef ítrekað gert athugasemdir við að uppstilling flokksins í því kjördæmi  sé ólögleg þar sem ekki hafi verið boðað til fundar með löglegum  hætti. 
 
Þann  tíma  sem ég hefi gengt starfi varaformanns  Frjálslynda flokksins   sé ég ekki að  vilji sé til neinna breytinga. Flokkur sem  virðist  ekki  geta  haft stjórn á sínum innri málefnum er ekki  nægilega  trúverðugur  að mínu mati, en nauðsynlegt er að stjórnmálaflokkar njóti trúverðugleika í þeirri endurreisn og uppbygginu sem framundan er í íslensku þjóðfélagi. 

Ég hef því ákveðið að segja af mér öllum trúnaðarstörfum á vegum flokksins þar með talið varaformennsku í flokkum og formennsku í  Landssambandi  kvenna í Frjálslynda flokknum og mun ekki taka sæti á framboðslista flokksins í næstu alþingiskosningum. Jafnframt tilkynni ég hér með að ég segi mig úr  Frjálslynda flokknum frá og með deginum í dag. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu samstarfsmönnum traustið sem þeir hafa sýnt mér og óska flokknum velfarnaðar," að því er segir í yfirlýsingu frá Ásgerði Flosadóttur.
 

Ásgerður Flosadóttir
Ásgerður Flosadóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert