Sakaði Ögmund um kjarkleysi

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sakaði Ögmund Jónasson, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í dag um kjarkleysi við að takast á við þann vanda sem blasi við í heilbrigðiskerfinu.

Sagði Ragnheiður að þrír mánuðir væru liðnir af fjárlagaárinu og ekkert bólaði á tillögum ráðherrans um það hvernig skera ætti niður um  7 milljarða króna í heilbrigðiskerfinu eins og fjárlög yfirstandandi árs segðu fyrir um. 

Skoraði Ragnheiður á Ögmund að gera þinginu án tafar grein fyrir því hvernig hann ætlaði að taka á þessum vanda en láta það ekki bíða fram að kjördegi eða láta nýja ríkisstjórn fást við málið eftir kosningar. „Það er meira en kjarkleysi, það er dugleysi," sagði hún.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði áður spurt Þuríði Backman, þingmann VG og formann heilbrigðisnefndar,  hvað ætti að gera til að skera niður útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Spurt hefði verið um það á fundum nefndarinnar hvernig framkvæmd fjárlaga gengi að þessu leyti en engin svör hefðu fengist. 

Þuríður sagðist hafa óskað eftir því að fulltrúar heilbrigðisráðuneytis kæmu á fund nefndarinnar á fimmtudag til að gera grein fyrir stöðu mála og framkvæmd fjárlaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert