Samfylkingin bætir fyrir mistök

Frá kosningum 2007 - Samfylkingu urðu á mistök í fjármögnun …
Frá kosningum 2007 - Samfylkingu urðu á mistök í fjármögnun sem hér með verða leiðrétt Kristinn Ingvarsson

Samfylkingin ætlar að endurgreiða styrk sem flokkurinn þáði frá Íslandspósti í kosningabaráttunni árið 2007 að upphæð 150.000 krónum, þar sem það brýtur í bága við lög sem samþykkt voru árið 2006 og tilgreina að stjórnmálaflokkum sé óheimilt að þiggja framlög frá fyrirtækjum eða félögum í opinberri eigu.

Að sögn Sigrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra flokksins, var um mistök að ræða sem Samfylkingin, líkt og aðrir stjórnmálaflokkar, gerðu sér ekki grein fyrir á sínum tíma. Samfylkingin gerði grein fyrir fjárframlaga til flokksins í ágúst 2007 þar sem styrkurinn frá Íslandspósti var m.a. tilgreindur, en engin athugasemd barst frá Ríkisendurskoðun á þeim tíma. 

„Samfylkingin harmar þessi mistök og mun í kjölfarið gæta enn betur en áður að vinnulagi við öflun styrkja til flokksins,“ segir Sigrún.  Krónurnar 150.000 verða endurgreiddar til Íslandspósts í dag að hennar sögn.

„Samfylkingin hefur ætíð mælt fyrir auknu gegnsæi varðandi fjármögnun stjórnmálaflokkanna og benda má að ársreikningar flokksins frá árinu 2001 eru aðgengilegir á vef flokksins,“ segir Sigrún og bendir einnig á að fjárhagur flokksins sé traustur, allar kosningaskuldir frá árinu 2007 hafi verið greiddar upp á síðasta ári, langtímaskuldir nemi nú einungis um 5% af veltu flokksins og eigið fé sé jákvætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert