Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi

Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Guðlaugur …
Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinum í Valhöll. mbl.is/GSH

„Við þurfum að vinna litla sigra á hverjum degi, sem safnast saman í eitthað stórt," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins þegar hann ávarpaði fund sjálfstæðismanna í Valhöll í dag.

Illugi Gunnarsson, frambjóðandi flokksins, sagði, að markmiðið ætti að vera að auka fylgi við sjálfsstæðisstefnuna um 1 prósent á dag fram að kosningum, sem verða eftir rétta viku.

Guðlaugur Þór Þórðarson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, sagðist fullyrða, að ástæðan fyrir því að vinstriflokkarnir boðuðu til kosninga á þessum tíma væri sú að þannig gætu þeir valdið Sjálfstæðisflokknum mestum skaða. „Það eina sem sameinar vinstriflokkana er andstaðan við Sjálfstæðisflokkinn," sagði Guðlaugur.

Bjarni sagði, að óvanalega mörg verkefni væri við að glíma. Og Sjálfstæðisflokkurinn væri í óvanalegri stöðu, hann færi inn í kosningar án þess að vera í ríkisstjórn og það væri óvanalegt að gengið sé til kosninga án þess að kjörtímabilið hafi verið klárað.

Hann sagði andstæðinga flokksins frekar vilja gera upp við fortíðina en ræða um lausnir á aðkallandi vanda. Nú þyrfti að vinna verk sem skiptu máli fyrir komandi kynslóðir. Sjálfstæðisflokkurinn tefldi fram einföldum úrræðum sem eigi að standa öllum til boða og byggi á því að Íslendingar geti unnið sig út úr vandanum á um það bil tveimur árum.

Ríkisstjórnin hefði hins vegar vikið sér undan því að segja hvernig hún ætli að leysa vandann fái hún stuðning eftir kosningar.

Illugi Gunnarsson sagði að Íslendingar standi frammi fyrir gríðarlegum vanda í ríkisfjármálum. Útlit væri fyrir 150-170 milljarða halla á ríkissjóði á þessu ári og það stefni í annað eins á því næsta. Úrræði vinstriflokkanna væru að hækka skatta og lækka laun. Það ætti semsagt að fara til fjölskyldnanna í landinu og segja: Húsin ykkar hafa lækkað í verði, launin hafa lækkað, þið hafið misst vinnuna og lausnin er að hækka skattana.

Sjálfstæðisflokkurinn teldi hins vegar að eina leiðin til að auka tekjur ríkisins væri að stuðla að því, að skattstofnarnir braggist þannig að það skapist tekjur og verðmæti. Þá sagði hann nauðsynlegt  að vextir á Íslandi verði lækkaðir og lækkaðir hratt.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði, að kostirnir hafi ekki verið jafn skýrir lengi og nú. Vinstriflokkarnir byðu upp á gamaldags leið ríkisafskipta sem Íslendingar hefðu hafnað fyrir löngu. Og í þessum kosningum væri ekki aðeins verið að vega að Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðisstefnunni heldur öllu því sem íslenskt er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert