ESB-viðræður í júní?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í Zetunni á mbl.is í dag, að flokkurinn setji aðildarviðræður við Evrópusambandið í forgang og þær gætu hugsanlega hafist í júní.  Gangi allt að óskum kynnu Íslendingar að geta tekið upp evru eftir fjögur ár.

Jóhanna sagði mikilvægt, að Íslendingar komist úr úr krónunni eins fljótt og hægt er og þar væri aðild að Evrópusambandinu grundvallaratriði.

„Það er mikilvægt að sækja strax um aðild svo fólk sjái hvað við fáum. Við munum standa vörð um okkar auðlindir, okkar stefnu í sjávarútvegi og landbúnaði og það getum við gert," sagði Jóhanna.

Hún sagði, að ef farið yrði inn í slíkar viðræður, t.d. í júní, yrði hægt að leggja niðurstöðuna undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jóhanna sagði aðspurð, að Vinstri grænir viti nákvæmlega að Samfylkingin setji þetta mál í forgang í stjórnarsamstarfi.  „Ég er ekkert hrædd um að við getum ekki náð samkomulagi við Vinstri græna um þetta," sagði hún.  „Miðað við reynslu mína og samstarf við Steingrím J. Sigfússon og Vinstri græna er ég hjartanlega sannfærð  um að við munum takast að ná niðurstöðu í málinu eins og öllum öðrum málum sem við höfum þurft að fást við. Ég tel að okkur muni takast saman að leiða þjóðina inn í Evrópusambandið, sem er framtíðin fyrir íslensku þjóðina."

Jóhanna sagði að það gæti tekið 1-1½ ár að fá aðild að Evrópusambandinu og þá væru Íslendingar komnir í skjól með krónuna. Það gæti tekið 1½ ár tilviðbótar að uppfylla Maastricht skilyrðin. Ég spái því að eftir fjögur ár yrðum við búin að taka að fullu upp evru," sagði Jóhanna.  

Hún bætti við, ef það verði niðurstaðan eftir alþingiskosningarnar á laugardag að Ísland sæki um ESB-aðild og að það verði forgangsmál „þá held ég að það séu bjartir tímar framundan hjá þessari þjóð."

Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við Agnesi Bragadóttur og Karl Blöndal í …
Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við Agnesi Bragadóttur og Karl Blöndal í Zetunni. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert