Fjörugar umræður um borgarmálin

Oddvitar flokkanna sem ætla að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum í …
Oddvitar flokkanna sem ætla að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum í vor, í Silfri Egils í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddvitar þeirra sex lista sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningum voru í viðtali í Silfri Egils í Sjónvarpinu. Þar voru heitar umræður um málefni Orkuveitunnar, grunn- og leikskóla og umdeilda styrki borgarinnar til Golfklúbbs Reykjavíkur. Var þetta fyrsti opinberi umræðufundur oddvitanna fyrir kosningarnar sem fara fram 29. maí nk.

Í umræðum um styrkinn til GR lögðu fulltrúar í núverandi minnihluta, Dagur B. Eggertsson frá Samfylkingu og Sóley Tómasdóttir frá VG, áherslu á að borgin yrði að setja mikilvægari mál í forgang en starfsemi golfklúbba, setja yrði börnin í forgang og verja grunnþjónustuna almennt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og oddviti sjálfstæðismana, hafnaði því alfarið að borgin hefði verið að veita golfklúbbnum fyrirgreiðslu umfram önnur íþróttafélög. Gerðir hefðu verið samningar við klúbbinn á sínum tíma sem borgin hefði verið að efna.

Meðal þátttakenda í umræðunum var Sigurjón Kjartansson, fulltrúi Besta flokksins sem félagi hans, Jón Gnarr, stofnaði. Hann sagði Besta flokkinn vilja berjast fyrir breytingum í stjórnmálum og leggja niður það karp sem verið hefði á milli manna. „Ég er algjörlega saklaust í REI-málinu," sagði Sigurjón þegar talið barst að orkumálum.

Ólafur F: Magnússon frá F-listanum gagnrýndi borgarstjóra harðlega fyrir hlut hennar og Sjálfstæðisflokksins í lántökum Orkuveitunnar og dótturfélaga. „Glórulaust fjárfestingafyllerí í orkumálum“ hefði verið hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum.

Besti flokkurinn vill sameiningu í Reyko 

Besti flokkurinn stefnir að því að sameina Reykjavík og Kópavog, sem fengi nafnið Reyko. Óeðlilegt væri að þessi sveitarfélög væru ekki sameinuð. „Það væri eins og að skilja Manhattan frá New York," sagði hann. Ólafur F. minnti Sigurjón þá á að Besti flokkurinn hefði tekið upp mörg af baráttumálum frjálslyndra í borginni og þeir útilokuðu ekki samstarf að loknum kosningum.

Einar Skúlason, oddviti framsóknarmanna, sagði þá ganga óbundna til kosninga, þó að samstarfið með sjálfstæðismönnum hefði gengið mjög vel. Þar hefði góður trúnaður ríkt á milli meirihlutaflokkanna á yfirstandandi kjörtímabili.

Ólafur sagði meinið sem þyrfti að fjarlægja úr borgarstjórn væri Framsóknarflokkurinn. Mótmælti Einar þessum orðum Ólafs og benti á að nýtt fólk væri nú á lista framsóknarmanna. „Svona málflutningur er algjör óþarfi,“ sagði Einar við Ólaf, sem svaraði því til að Framsóknarflokkinn væri ,,líil fjármálamafía." Einar sagði þessi orð koma úr hörðustu átt.

Sigurjón sagði Besta flokkinn vera að redda því, samkvæmt síðustu skoðanakönnun, að fjarlægja framsóknarmenn. Besti flokkurinn gæti orðið í oddastöðu við myndun meirihluta. „Þetta snýst bara um hverjir fá að bjóða best," sagði Sigurjón.

Hanna Birna sagði sjálfstæðismenn opna fyrir öllum möguleikum við myndun nýs meirihluta. Mestu skipti að flokkarnir næðu saman um framtíðarverkefni í borginni, fólkið í borginni væru lykilatriðið, ekki flokkarnir.

Sigurjón Kjartansson var fulltrúi Besta flokksins, hér ásamt Sóleyju Tómasdóttur …
Sigurjón Kjartansson var fulltrúi Besta flokksins, hér ásamt Sóleyju Tómasdóttur og Ólafi F. Magnússyni. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka