Deilt um tvö vafaatkvæði

Úrslit kosninganna í sameiginlegu sveitarfélagi Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps í Eyjafirði hafa verið kærð til sýslumannsins á Akureyri vegna tveggja vafaatkvæða. Atkvæðin skera úr um hvort Samstöðulistinn (J) eða Lýðræðislistinn (L) fær hreinan meirihluta.

Að sögn Guðmundar Víkingssonar, yfirmanns kjörstjórnar á staðnum, fékk Samstöðulistinn 170 greidd atkvæði og Lýðræðislistinn 169 greidd atkvæði. Við þetta bættist síðan tvö vafaatkvæði sem bæði voru túlkuð sem atkvæði greidd Lýðræðislistanum þannig að endanlegar tölur voru 170 gegn 171 atkvæði greitt hvorum lista.

„Í báðum tilvikum hafði ekki verið merkt x framan við listabókstafinn heldur hafði x-ið verið sett fyrir framan nafn frambjóðanda á lista Lýðræðislistans. Í öðru tilvikinu hafi x-ið verið sett framan við nafn efsta manns og í hinu tilvikinu hafi það verið sett fyrir framan þriðja mann á lista. Í hvorugu tilvikinu var átt við nöfn frambjóðenda á hinum listanum," segir Guðmundur.

Bendir hann á að víða á landsbyggðinni sé á kjörseðlum ekki að finna sérstakan kassa fyrir framan listabókstafinn sem leiðbeini kjósendum um hvar beri að staðsetja x-ið. Þannig sé allur gangur á því hvort kjósendur haki x eða jafnvel v fyrir framan listabókstafinn, merki x-ið fyrir aftan listabókstafinn eða dragi jafnvel hring utan um listabókstafinn. Í öllum framangreindum tilvikum sé venjan sú að túlka atkvæðið sem gilt, sé ekkert annað að sem ógilt geti kjörseðilinn.

Að sögn Guðmundar var aðeins eitt atkvæði dæmt ógilt í gær. Þar var um að ræða utankjörfundaratkvæði þar sem á hafði verið stimplað listabókstafurinn V, en í framboði voru aðeins tveir listar og voru þeir með listabókstafina J og L.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur að kjörstjórn hafi þegar vafaatkvæðin lágu ljós fyrir sett sig í samband við Hjalta Zóphóníasson, skrifstofustjóra í dóms- og mannréttindaráðuneytinu, til þess að fá leiðbeiningar um hvernig túlka bæri vafaatkvæðin tvö. „Hann fletti þessu upp fyrir okkur og upplýsti okkur í framhaldinu um það að okkur bæri að taka þessi atkvæði gild,“ segir Guðmundur.

Segist hann fagna því að skorið verið úr um málið hjá sýslumanni á Akureyri enda aldrei gott þegar vafamál séu óútkljáð. Bendir hann á að verði bæði vafaatkvæðin úrskurðað ógild standi Samstöðulistinn uppi sem sigurvegari, en verði aðeins annað atkvæðið úrskurðað ógilti sé jafnt með listunum og þá þurfi að grípa til hlutkestis. Tekur hann fram að niðurstöðu sé líklega ekki að vænta fyrr en í næstu viku, en sýslumanni num á Akureyri verða afhent öll kjörgögn sem nú eru geymd í læstum hirslum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert