Munum taka yfirvegaðar ákvarðanir

Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir eftir að fyrstu tölur …
Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir eftir að fyrstu tölur birtust í gær. mbl.is/Eggert

„Nú þurfum við að koma saman og taka yfirvegaðar ákvarðanir. Það liggur ekkert á. Það hafa verið teknar allt of margar ákvarðanir í fljótfærni," sagði Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins, í Silfri Egils í dag. 

Jón sagðist ekki hafa haft mikinn tíma til að velta málum fyrir sér en hann myndi eiga fundi með borgarfulltrúum flokksins og öðrum aðstandendum framboðsins í dag.  Teknar yrðu sameiginlegar ákvarðanir með velferð Reykjavíkur að leiðarljósi.

Jón sagði aðspurður, að það væri mjög spennandi að verða borgarstjóri en hins vegar væri hann til í að skoða aðra möguleika.

Besti flokkurinn fékk 6 borgarfulltrúa í borgarstjórnarkosninunum í gær og vann stórsigur.  Hann sagði í Silfri Egils, að sér hefði sem borgarbúa þótt stjórnmálin verða leiðinlegri og leiðinlegri með tímanum. Þá hefðu prófkjör einnig skaðað stjórnmálalfokkana og skapað tortryggni innan þeirra.

„Það er búið að taka húmorinn út úr pólitískri umræðu," sagði Jón.  

Hann sagði einnig, að framboð Besta flokksins hefði vakið alþjóðlega athygli og hann hefði veitt fjölmiðlum á borð við Wall Street Journal og Stern viðtöl.  Sagði hann að það kæmi sér ekki á óvart þótt flokkar á borð við Besta flokkinn myndu spretta upp víðar því svipuð óánægja væri víða með hefðbundna stjórnmálaflokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert