Besti Sam óskar eftir betra nafni á meirihlutann

Frá blaðamannafundi Besta flokksins og Samfylkingarinnar í dag.
Frá blaðamannafundi Besta flokksins og Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Ómar

Nýr meirihluti í borginni kallar sig „Besti Sam“ í yfirlýsingu sem meirihlutinn hefur sent frá sér. Um leið er óskað eftir tillögum borgarbúa um nýtt nafn á meirihlutann. 

Hér má lesa yfirlýsingu nýs meirihluta í heild sinni:

 „Besti Sam - Yfirlýsing

Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa náð saman um myndum meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Jón Gnarr verður næsti borgarstjóri. Dagur B. Eggertsson verður formaður borgarráðs. Gagnkvæmt samkomulag er um frekari verkaskiptingum og verður hún kynnt síðar. Viðræður hafa dregist nokkuð á langinn þar sem þær hafa verið svo skemmtilegar að öllum þykir leiðinlegt að ljúka þeim. Því munu borgarstjórnarflokkar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vinna áfram saman að ítarlegri verkefnalistum og eiga samtöl og samráð við sviðsstjóra og starfsmenn borgarinnar og aðra fulltrúa í borgarstjórn í næstu viku. Meirihlutaskipti verða á næsta reglulega fundi borgarstjórnar, 15.júní nk.

Nýi meirihlutinn hefur ekki fengið nafn og verður kallað eftir hugmyndum borgarbúa um skemmtilega nafngift. Engin sérstök verðlaun eru í boði. Stefna meirihlutans er að gera Reykjavík að enn fallegri og skemmtilegri borg þar sem börnum og fjölskyldum líður vel. Það er forgangsverkefni að stuðla að virkum samskiptum milli stjórnvalda og íbúa borgarinnar og leita ráða til þess að Reykvíkingar hafi meira innlegg og áhrif á stefnumörkum og ákvarðanir. Verkefni á borð við hugmyndavefinn Betrireykjavik.is verði útfærðar enn frekar. Íbúar í hverjum fái meira um sín mál að segja til að mynda með beinum atkvæðagreiðslum.

Reykjavík taki frumkvæði í umhverfismálum og norðurhjaramálum. Húsdýragarðurinn verði efldur og stefnt að því að þar verði styrkt setur til að endurhæfa dýr í hremmingum.

Það eru erfiðir tímar og það er forgangsverkefni að verja þjónustu, skóla og hlúa að velferð þeirra sem minna mega sín. Á sama tíma er nauðsynlegt að gera ströngustu kröfu til reksturs. Að haldið sé vel um spaðana með ábyrgri og heiðarlegri fjármálastjórnun sem og upplýsingagjöf til almennings á mannamáli.

Vandi Orkuveitu Reykjavíkur verður tekinn föstum tökum til þess að hjúkra þessari gullgæs borgarbúa aftur til fullrar heilsu. Það er skýrt að Orkuveitan verði áfram í eigu borgarbúa. Eignarhald borgarbúa á auðlindum borgarlandsins verði tryggt, þær nýttar af meiri ábyrgð og séð til þess að eðlilegt afgjald fáist af þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert