Margir vilja á stjórnlagaþing

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Nokkrir tugir hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings, en framboðsfrestur rennur út á hádegi næstkomandi mánudag. Ekki hefur verið gefinn út tæmandi listi yfir frambjóðendur og stöðugt bætast fleiri við. Búast má við enn fleiri frambjóðendum, en meðal þeirra eru margir landsþekktir einstaklingar.

Opnuð hefur verið síða á vefnum Wikipedia þar sem fjallað er um stjórnlagaþing og safnað saman upplýsingum um frambjóðendur. Meðal frambjóðenda eru Baldur Ágústsson, sem bauð sig fram til forseta Íslands árið 2004, Frosti Sigurjónsson, fyrrum forstjóri Nýherja, Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur og Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Stjórnlagaþingið virðist freista margra blaða- og fjölmiðlamanna, en meðal umsækjenda er að finna nokkra úr þeirri stétt. Friðrik Þór Guðmundsson, Illugi Jökulsson, Inga Lind Karlsdóttir, sjónvarpsmaður, Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri og Ólafur Sigurðsson fyrrum fréttamaður eru nokkur þeirra.

Stjórnlagaþing er stofnað i þeim tilgangi að semja nýja eða breyta stjórnarskrá ríkis.  Aldrei hefur fyrr hefur verið efnt til þess, en frá lýðveldisstofnun hafa af og til verið uppi hugmyndir þess efnis, en þær hafa ekki orðið að veruleika fyrr en nú.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 var samþykkt að efna skyldi til stjórnlagaþings og í kjölfarið lýsti flokkurinn því yfir að hann myndi styðja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með því skilyrði að efnt yrði til stjórnlagaþings. Fallist var á það.

Í lögum um stjórnlagaþing segir að það skuli skipað  minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa. Þeir skulu kosnir persónukosningu.
Þingið á að koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011. Það getur þó ákveðið sjálft að ljúka störfum fyrr.
Stjórnlagaþingi er heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þingsins verði framlengdur með þingsályktun um allt að tvo mánuði. 

Meðal þess sem stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar er: Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, lýðræðislega þátttöku almennings, kjördæmaskipan og hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins. 

Þjóðfundur með 1000 þáttakendum verður haldinn 6. nóvember næstkomandi. Hann er til undirbúnings stjórnlagaþingi.

Vefsíða um stjórnlagaþing

Lög um stjórnlagaþing



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert