Forsetinn á að efna til umræðu

Herdís Þorgeirsdóttir, forsetaframbjóðandi.
Herdís Þorgeirsdóttir, forsetaframbjóðandi.

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi var í Íslandi í bítið á Bylgjunni nú í morgunsárið. Hún sagði forsetann vera sameiningartákn þjóðarinnar. Herdís sagði að þær betrumbætur sem þjóðin hefði vænst hefðu ekki enn náð fram að ganga.

Hún sagði að forsetinn ætti að sameina fólk um ákveðin grunngildi og nefndi þjóðfundinn árið 2010 sem dæmi.

Herdís var spurð að því hvort forsetinn ætti að hafa skoðanir á nýtingu auðlinda og á öðrum umdeildum atriðum. Hún sagði forsetann eiga að efna til umræðu með hagsmuni atvinnulífsins og komandi kynslóða að leiðarljósi. Forsetinn eigi ekki að segja „mér finnst“ en að hann eigi að reyna að opna augu almennings fyrir því að almenningur setji sig inn í hlutina.

Hún sagði nauðsynlegt að fólk hugsi um hversu langt megi ganga til að auka hagvöxt í þessu samhengi og að efla þurfi umræðuna.

„Evrópa er í kaótísku ástandi eins og er núna,“ sagði Herdís aðspurð um afstöðu sína til inngöngu Íslands í ESB. Hún sagðist mjög hugsi yfir ástandinu þegar um fimmtungur Grikkja gengur um atvinnulaus.

Aðspurð um trúmál sagðist Herdís vera mjög trúið. Hún hafi verið í kirkjukór á yngri árum og mikið farið með bænir. „Mér þykir vænt um kirkjuna, ég er trúuð,“ sagði Herdís en sagðist líka virða trúfrelsið og að ef meirihluti þjóðarinnar vildi ekki hafa þjóðkirkju þá ætti að ákveða slíkt í almennri kosningu. Hún sagði trúfrelsi skipti hana miklu og væri tryggt í stjórnarskrá.

„Við þurfum að fara aftur til gamalla gilda,“ sagði Herdís og að fólk þyrfti að vera virkara í að móta samfélag sitt.

Herdís sagði málskotsrétt forseta vera tæki fyrir almenning til að taka völdin í sínar hendur og að hún teldi þá stund aldrei koma upp að forseti sjálfur myndi ákveða að beita þessum rétti. Krafan yrði að koma utan frá.

„Við þurfum að styrkja þann grunn sem við byggjum á og við þurfum að styrkja lýðræðið,“ sagði Herdís

Hún bað kjósendur að íhuga vel hvernig þeir noti atkvæði sitt og að þeir kjósi þann frambjóðenda sem þeir treysti best til embættisins. Hún sagðist finna mikinn stuðning og að hann væri ekki í samræmi við skoðanakannanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert