Ólafur Ragnar heldur forystunni

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mests fylgis samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup eða 44,8% en næst kemur Þóra Arnórsdóttir með 37%. Fylgi Ólafs minnkar um eitt prósentustig miðað við síðustu könnun fyrirtækisins en Þóra tapar tveimur prósentustigum. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins.

Næstur kemur Ari Trausti Guðmundsson með 10,5% fylgi og þá Herdís Þorgeirsdóttir með 5,3%. Þau bæta bæði lítillega við sig. Andrea J. Ólafsdóttir mælist með 1,6% og tapar fylgi og Hannes Bjarnason er með 0,8%.

Þá kom fram í frétt RÚV að 60% þeirra sem styðja ríkisstjórnina styðja Þóru á meðan 62% þeirra sem styðja ekki stjórnina ætla að kjósa Ólaf Ragnar.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 14. til 20. júní og lentu 1.350 manns í úrtakinu. Svarhlutfallið í könnuninni var 58,5 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert