Treystum konum til forystu

Samfylkingin verður að vera trú sinni stefnu um jafnrétti karla og kvenna og vera óhrædd við að brjóta niður kynjamúra og breyta þannig samfélaginu til hins betra. Þetta kemur fram í ályktun kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Mikilvægt er að tryggja að konur og karlar skipi forystusæti á framboðlistum til jafns, segir ennfremur í ályktuninni.

„Í þrígang höfum við í Samfylkingunni valið okkur konu sem formann og fyrstu konurnar í embættum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra koma úr okkar röðum. Í ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur var þeim sögulega áfanga einnig náð að konur urðu í fyrsta sinn jafnmargar og fleiri en karlar í ríkisstjórn á Íslandi,“ segir í ályktuninni.

Undir forystu Samfylkingarinnar hefur ríkisstjórnin tryggt jafnan hlut karla og kvenna meðal ráðuneytisstjóra og í nefndarstörfum á vegum Stjórnarráðsins og lög hafa nú verið sett sem tryggja a.m.k. 40% þátttöku hvors kyns í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða. Til þessa þurfti styrk og þor Samfylkingarinnar. 

„Nú hefur Samfylkingin stigið enn eitt skref í átt til aukinna áhrifa kvenna og samþykkt fléttu- eða paralista í öllum kjördæmum. Mikilvægt er að tryggja að konur og karlar skipi forystusæti á framboðlistum til jafns. Fyrir kosningarnar 2009 leiddi kona aðeins einn lista af sex. Það er í okkar höndum að láta það ekki gerast aftur. Það á ekki að vera þannig í nútímalegum jafnaðarmannaflokki að karlar leiði og konur fylgi. Nú er tækifæri fyrir alla flokksfélaga í Samfylkingunni að sýna í verki að þeir vilji að flokkurinn verði áfram brjóstvörn og brimbrjótur femínismans á Íslandi. Ekki bara í orði, heldur einnig á borði. 

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorar á alla sanna femínista að styðja konur til forystu.  Breytum samfélaginu og byrjum hjá okkur sjálfum,“ segir í ályktun kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert