Ánægja með kjörsókn hjá VG það sem af er degi

Um 10 prósent þeirra sem eru á kjörskrá höfðu kosið í forvali Vinstri grænna um hádegisbilið í Suðvesturkjördæmi og um 100 atkvæði höfðu borist í Reykjavík um klukkan 12.  

„Við erum mjög ánægð með kosningaþátttökuna það sem af er,“ segir Tómas Jónsson formaður kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi. 

Hann segir að á milli 150-160 væru búin að kjósa en á kjörskrá eru 1172. Rúmlega 80 utankjörfundaratkvæði hafi borist í vikunni. 

Kosið er um sex efstu sætin fyrir Suðvesturkjördæmi. Kjörfundur verður opin frá kl. 10 – 18 og kjörstaður fyrir Kjósarhrepp og Mosfellsbær er í Hlégarði í Mosfellsbæ, kjörstaður fyrir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes er að Strandgötu 11 í Hafnarfirði og kjörstaður fyrir Kópavog og Seltjarnarnes er í Hamraborg 1-3 í Kópavogi.

Búast má við fyrstu tölum um 8 í kvöld. En kosningavaka verður í Hamraborg 1-3 í Kópavogi.  

Um hundrað kosið í Reykjavík  

Um 100 manns höfðu kosið í forvali VG í Reykjavík samkvæmt Heimi Janussyni formanni kjörstjórnar. Á kjörskrá eru 2600 samkvæmt félagatali. Um 100 utankjörfundaratkvæði höfðu borist í gær. 

Kosið er um þrjú efstu sætin fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Kjörfundur stendur yfir til klukkan 18.

Kjörfundur er haldinn í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Aðgengi er frá vesturhlið   (í átt að Hlíðaskóla) og af bílastæðinu fyrir ofan skólann þar sem aðgengi er fyrir fatlaða.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert