Fyrirheit „í þágu heimilanna“

Hanna Birna Kristjánsdóttir nýkjörinn varaformaður og Bjarni Benediktsson endurkjörinn formaður …
Hanna Birna Kristjánsdóttir nýkjörinn varaformaður og Bjarni Benediktsson endurkjörinn formaður á landsfundi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skulda- og skattalækkanir, aukin verðmætasköpun, efnahagslegur stöðugleiki og afnám gjaldeyrishafta er meðal þeirra forgangsatriða sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að næsta ríkisstjórn setji í forgang, samkvæmt stjórnmálaályktun 41. landsfundar flokksins sem samþykkt var í fundarlok í dag.

Í ályktuninni segir að vorið 2013 feli í sér mikil tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til forystu í íslensku samfélagi þar sem áherslan verði á forgangsröðun í þágu heimila og fyrirtækja. Leiðarstefin verði virðing fyrir einstaklingsframtaki, samhjálp borgaranna, atvinnufrelsi og verðmætasköpun, í samræmi við grunngildi sjálfstæðisstefnunnar.

Yfirskrift stjórnmálaályktunarinnar og landsfundar í heild þetta árið er „Í þágu heimilanna“.

Fimm verkefni verða sett í forgang komist Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn eftir kosningar:

  1. Að ráðast að rót vanda íslenskra heimila með skulda- og skattalækkunum.
  2. Að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.
  3. Að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og afnema gjaldeyrishöft.
  4. Að sýna ábyrgð og bæta opinberan rekstur, lækka skatta og endurskoða bótakerfi.
  5. Að tryggja grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og standa vörð um velferðina. 
<strong>Fái að skila lyklunum</strong>

Meðal hugmynda sem samþykktar voru á landsfundi til að ná þessu fram má nefna að veita skuli sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af lánum til eigin íbúðarkaupa og nýta skattkerfið til að lækka húsnæðislán heimilanna.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að fólk sé að óþörfu gert upp vegna skulda sem það hefur stofnað til vegna íbúðarhúsnæðis. Sjái skuldari sér engan veginn fært að standa undir rekstri húsnæðis verður honum gert heimilt að skila lyklunum og losna undan skuldum sínum án þess að það leiði til gjaldþrots.

Verðtryggingin hefur bæði kosti og galla að mati Sjálfstæðisflokksins, sem vill stuðla að efnahagskerfi þar sem verðtryggingin verður óþörf. Komist Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn verður það gert að forgangsverkefni á fyrsta starfsári að setja markvissa og tímasetta áætlun um að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla líkt og verið hefur.

<strong>Upptaka alþjóðlegrar myntar verði skoðuð</strong>

Hvað atvinnulífið varðar telur Sjálfstæðisflokkurinn eitt mikilvægasta verkefnið að losa Íslendinga undan gjaldeyrishöftum. Samþykkt var á landsfundi að kanna þurfi til þrautar alla möguleika fyrir Ísland í gjaldmiðla- og gengismálum, þar með talið upptöku alþjóðlegrar myntar.

Uppbygging og nýting auðlinda landsins í sátt við umhverfissjónarmið er lykilatriði í framtíðaruppbyggingu íslensks hagkerfis að mati Sjálfstæðisflokksins. Á landsfundi var ályktað að þær atvinnugreinar sem nýti náttúruauðlindir í eigu hins opinbera eigi að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir. Virða þurfi nýtingar- og eignarréttinn í hvívetna.

<strong>70 ára og eldri starfi án skerðingar</strong>

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að einfalda skattkerfið til muna og lækka skatthlutföll í áföngum. Komist flokkurinn í ríkisstjórn verða skattahækkanir fráfarandi ríkisstjórnar endurskoðaðar til lækkunar og einföldunar og ráðist í heildarendurskoðun á skattaumhverfinu með það að markmiði að fækka undanþágum og draga úr tekjutengingum. M.a. verður öllum þeim sem eru yfir 70 ára aldri gert heimilt að afla sér tekna án skerðingar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið og var samþykkt ályktun um að hætta skulið aðildarviðræðum. Engu að síður telur flokkurinn Evrópu eitt mikilvægasta markaðs- og menningarsvæði Íslands og því sé nauðsynlegt að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði ESB.

<a href="http://www.xd.is/media/landsfundur-2013fl/stjornmalaalyktun_landsfundur2013.pdf">Stjórnmálaályktun 41. landsfundar Sjálfstæðisflokksins</a>

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var þétt setinn í Laugardalshöll.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var þétt setinn í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg
Það var heitt í kolunum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Það var heitt í kolunum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013. mbl.is/Árni Sæberg
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var þétt setinn í Laugardalshöll.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var þétt setinn í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert