Stofna flokk til að vinna með Framsókn

Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Halldór Gunnarsson í Holti, sem nýverið sagði sig úr Sjálfstæðiflokknum, ætlar ásamt fleirum að stofna flokk sem hefur það að markmiði að vinna með Framsóknarflokknum eftir kosningar. Stofnfundur verður í lok vikunnar eða byrjun þeirrar næstu.

Þetta kom fram í viðtali Egils Helgasonar við Halldór í þætti Egils, Silfri Egils, á RÚV í hádeginu. „Við ætlum að stofna [flokk] á þann hátt að við köllum til fólksins. Með afskaplega einfaldri markmiðslýsingu; hvað verði nákvæmlega að gera gagnvart fjármálum heimilanna, gagnvart því að ná fram því að lög um gengislán og neytendalán nái fram í dómsal með flýtimeðferð og síðan setjum við fram afmarkaðar áherslur um hvernig við ætlum að leysa úr efnahagsvandanum,“ sagði Halldór.

Hann sagði flokkinn ætla að leysa vandamál sem gjaldeyrishöftin hafa í för með sér og setja það fram á skiljanlegan hátt. 

Halldór sagðist vera talsmaður flokksins til að byrja með en að honum kæmi fólk úr öllum áttum. Eftir stofnfundinn verður fundað um allt land. „[Við ætlum] að kalla til fólks sem vill koma til fylgdar þannig að við séum eingöngu með nýtt fólk. Í stað þess að gera uppreisn ætlum við að hafa það markmið að geta unnið með Framsóknarflokknum við að leysa þessi mál því hann hefur einn þorað að setja fram áherslur um að þessi mál séu í forgrunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert