Friður þarf að ríkja á þjóðarheimilinu

Árni Pál Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í kvöld.
Árni Pál Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að friður verði að ríkja á þjóðarheimili Íslendinga. Að baki sé kjörtímabil erfiðrar glímu þar sem ríkisstjórnin hafi forðað þjóðinni frá efnahagslegu hyldýpi. Framundan sé að þróa nýja íslenska stjórnmálamenningu sem byggi á því besta úr þingræðishefð Íslendinga.

Þetta kom fram í ræðu hans við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.

Hann segir að undanfarin ár hafi leitt yfir íslenskt þjóðlíf meiri átök og harkalegri orðræðu og ábyrgðarlausara daður við ofbeldi en dæmi eru um í nútímasögu okkar. Alþingi hafi liðið fyrir þetta ástand og traust á því minnkað af skiljanlegum ástæðum.

„Framundan er að þróa nýja íslenska stjórnmálamenningu sem byggir á því besta úr þingræðishefð okkar, nýtir afl almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu en gefur þinginu líka stöðu til að standast áhlaup háværra en fámennra þrýstihópa. Stjórnmálin eru að læra að nýta þjóðaratkvæðagreiðslur. Við virtum þjóðarviljann í Icesave-málinu og við munum líka þurfa að virða hann í stjórnarskrármálinu,“ sagði Árni Páll.

Hann segir ennfremur, að nú sé tækifæri til að breyta um takt og marka nýja braut. Stærsti vandi hagstjórnarinnar síðustu ár sé sá að krónan kollsteyptist, sem skildi eftir illeysanlegan skuldavanda og gjaldeyrishöft.

„Á einni nóttu urðum við hálfdrættingar í launum á við norrænar þjóðir, eftir að hafa fylgt þeim eftir í fölsku öryggi árin fyrir hrun. Skammgóður efnahagsbati var fenginn árin 2009-2011 með gengisfellingunni,“ sagði hann.

Nauðsynlegt sé að marka nýja braut og því megi ekki loka leiðum að óþörfu.

„Í þessari skrýtnu stöðu skipbrots jafnt máttlausrar stjórnmálahefðar og úreltrar efnahagsstefnu felast ómæld tækifæri. Í þetta sinn duga engir plástrar og engar heitstrengingar um að gera bara betur næst. Þetta reddast ekkert.
Það þarf grundvallarbreytingar. Ný kynslóð þarf að mæta nýjum verkefnum og nýta þau tækifæri sem þetta undarlega ástand skapar,“ sagði hann.

Hann benti á, að fyrir nokkrum dögum hafi verið samþykkt hér ótímabundin gjaldeyrishöft. Síðast þegar slíkt ástand hafi verið sett á, hafi það varið í 65 ár.  „Viljum við vera áfram þjóð í höftum þegar við verðum komin á eftirlaun og börnin okkar kannski líka,“ spurði Árni Páll.

Hann segir jafnaðarmenn bjóða upp á samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna sem hafi  um áratugaskeið byggst á hugmyndinni um þjóðarheimilið, þar sem allir eiga heima og eru metnir að verðleikum á eigin forsendum.

„Á þjóðarheimili Íslendinga verðum við líka að hafa frið. Frið til að hugsa, frið til að vinna og frið til að vera við sjálf. Við getum verið ósammála um aðferðir og leiðir, en við ræðum okkur að niðurstöðu.  Og umfram allt megum við hafa ólíkar skoðanir, vonir og þrár. Því við viljum gott samfélag fyrir frjálshuga og fordómalaust fólk – fólk sem vill líf í lit, en ekki svarthvítan heim,“ sagði Árni Páll.

Mestu skipti að Íslendingar treysti því og trúi að Ísland hafi öll færi á að vera vettvangur kraftmikils atvinnulífs og gróandi þjóðlífs.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert