„Þetta er auðvitað bölvað klúður“

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna. Heiðar Kristjánsson

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, er ekki á kjörskrá og þar af leiðandi ekki kjörgengur. Hann hefur meira og minna verið búsettur erlendis síðan árið 1986 og var því ekki lengur með lögheimili hér á landi þegar hann flutti aftur til Íslands. Frestur til að færa lögheimili sitt til landsins og komast þannig á kjörskrá áður en kosið verður til Alþingis þann 27. apríl næstkomandi rann út 23. mars sl.

„Ég skráði mig inn á kjörskrá fyrir stjórnlagaráðskosningarnar,“ segir Guðmundur. „Samkvæmt reglunum á það að gilda í fjögur ár.“ Hann segist hafa staðið í þeirri meiningu að hann væri nú þegar á kjörskrá.

Vegabréf hans rann einnig út um þetta leyti. „Ég gat því ekki fengið lögheimili,“ segir Guðmundur. „Ég sótti um nýtt vegabréf og fór loks í morgun að breyta lögheimilinu,“ segir Guðmundur.

„Þjóðskrá er að kanna stöðuna og lögmaðurinn minn er að kanna þann möguleika að kæra þetta inn á kjörskrá,“ segir Guðmundur. „Ef þetta gengur ekki , þá verðum við bara að finna annan mann í oddvitann.“ Guðmundur er sem stendur sem efsti maður Hægri grænna í Suðvesturkjördæmi.

„Þetta er auðvitað bölvað klúður, ég get bara sjálfum mér um kennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert