Lilja Móses kveður Facebook

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Lilja Mósesdóttir þingmaður hefur verið iðin við að koma skoðunum sínum á framfæri á Facebook. Í pistli á síðunni í dag segir hún tímabært að draga sig út úr stjórnmálaumræðunni og hverfa um tíma af Facebook. Lilja þakkar fyrir fjörugar og gefandi samræður af vefnum síðustu fjögur ár. 

„Facebook hefur verið minn vettvangur til að koma á framfæri sjónarhorni mínu á rangfærslum og útúrsnúningi (fjöl)miðla sem beita öllum brögðum til að tryggja óbreytt valdakerfi,“ skrifar Lilja.

Hér er pistill Lilju í heild:

„Nú er orðið tímabært að draga sig út úr stjórnmálaumræðunni og þakka fyrir fjörugar og gefandi samræður á facebook síðastliðin 4 ár. Ég hef sem þingmaður haft mikið gagn og gaman af oft og tíðum afar persónulegum samskiptum við kjósendur í gegnum þennan miðil. Skoðanir mínar og tillögur um úrlausnir á efnahagsvanda okkar hafa slípast til eftir að hafa fengið hressilega umræðu meðal ykkar. Facebook hefur verið minn vettvangur til að koma á framfæri sjónarhorni mínu á rangfærslum og útúrsnúningi (fjöl)miðla sem beita öllum brögðum til að tryggja óbreytt valdakerfi. 

Ég hef oft undrast æðið sem virðist renna á marga í samfélaginu þegar ég tjái mig og mér hefur oft sviðið ómálefnaleg gagnrýni sem beinst hefur að persónu minni. Ástæðan er ekki síst sú staðreynd að Ísland er lítið samfélag þar sem (illt) umtal hefur mikil áhrif á möguleika einstaklinga og samskipti þeirra við aðra. Nú er kominn tími til að hverfa um tíma af facebook og snúa sér að öðrum áhugamálum og verkefnum. Ég þakka enn og aftur fyrir mig og allar þær góðu undirtektir sem málflutningur minn hefur fengið frá hruni!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert