Segir heimilin fá leiðréttingu strax

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson.

Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, í Reykjavík segir að þær krónueignir kröfuhafa í þrotabúum bankanna, sem framsóknarmenn vilja að notaðir verði til að lækka skuldir heimilanna, megi greiða til bankanna á 15-20 árum. Höfuðstóll lán einstaklinga lækki hins vegar strax þegar aðgerðin komi til framkvæmda.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra setti fram spurningar í 10 liðum á heimasíðu sinni og óskaði eftir að Frosti útskýrði betur hvernig Framsóknarflokkurinn ætlaði að standa að lækkun skulda heimilisins. Frosti svaraði spurningunum á heimasíðu sinni í gær.

Össur spurði m.a.: „Sé 300 milljörðum dælt út í hagkerfið þar sem þegar er allt of mikið peningamagn í umferð, myndi það ekki hafa þensluáhrif svipuð því sem raunin varð með Kárahnjúkavirkjun, valda verðbólguþrýstingi og éta upp stóran hluta einskiptislækkunar á höfuðstól skulda – auk þess að viðhalda fjármagnshöftum?”

Svar Frosta við spurningunni var þessi: „Niðurfærsla skulda heimila leiðir ekki sjálfkrafa til aukningar peningamagns. Hér skiptir aðferðin máli. Ef lækkunin væri staðgreidd til lánastofnana, þá myndi það vissulega leiða til aukningar og auka hættu á þenslu. Ef lækkunin er greidd út á löngum tíma (t.d. 20 árum) þá yrðu þensluáhrifin hverfandi.“

Össur velti fyrir sér hvort þetta þýði að skuldalækkun heimilanna ætti að koma til framkvæmda á næstu 20 árum.

Frosti sagði í samtali við mbl.is, að Össur væri að misskilja svar sitt. „Það er hægt að gera þetta með tvennum hætti. Annars vegar að greiða þetta út til lánastofnana og þá fer peningurinn í umferð. Hin leiðin byggir á því að lánastofnanirnar þurfa ekki að fá þetta greitt út þó að skuldin verði lækkuð strax hjá þeim sem tóku lánin. Lánastofnanirnar geta átt von á að fá þetta greitt frá ríkinu á 15-20 árum. Það er hins vegar misskilningur hjá Össuri að skuldararnir fá ekki leiðréttinguna sína strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert