Bjartsýnn Bjarni og ánægð Katrín

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er sannfærður um að við eigum enn meira fylgi inni. Við frambjóðendur finnum að það eru jákvæðir straumar með okkur. Ég er sannfærður um að við munum lyfta okkur enn hærra,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eða 24,8% og skilar það flokknum 18 þingmönnum. Framsóknarflokkurinn kemur næstur með 24,4% og fengi hann 20 þingmenn, mest allra flokka í könnuninni.

Samfylkingin yrði þriðji stærsti flokkurinn á þingi, fengi níu þingsæti, Vinstri græn kæmu næst með sjö þingsæti, þá Björt framtíð með fimm þingsæti og loks fengju Píratar fjögur þingsæti. Tíu þingmenn næðu ekki endurkjöri. Jöfnunarsæti eru níu og fengju VG og Píratar þrjú sæti hvor flokkur, Björt framtíð tvö og Samfylkingin eitt.

Kosningar fara fram á laugardag.

„Við tölum fyrir raunhæfum, ábyrgum lausnum sem hægt er að hrinda í framkvæmd strax,“ segir Bjarni. „Þær skipta heimilin og atvinnulífið miklu. Það þarf nýja efnahagsstefnu. Ég er mjög bjartsýnn á að niðurstaða kosninganna sýni mikinn stuðning við það að gera breytingar.“

Mikilvægt að nýta þetta einstaka tækifæri

„Það er ánægjulegt að sjá að Framsóknarflokkurinn skuli enn hafa svona mikinn stuðning. Við stefnum að því að auka stuðninginn þessa síðustu daga fyrir kosningar. Ég hef á tilfinningunni að við séum byrjuð að auka aftur fylgið og bætum vonandi við okkur fram að kosningum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

„Ég tel að sífellt fleiri geri sér grein fyrir því að tillögur okkar séu raunhæfar. Og að það sé mjög mikilvægt að ná að nýta þetta einstaka tækifæri vegna þess að það kemur ekki aftur.“

Mikilvægt að jafnaðarmenn hafi alvöruafl

„Við höfum fundið fyrir góðum viðbrögðum undanfarna daga. Það er gott að sjá að við erum að lyftast. Ég er sannfærður um að það er enn mikill hljómgrunnur og margir eftir að gera upp hug sinn. Ég er vongóður um að við náum að bæta eitthvað við okkur,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

„Við munum minna fólk á að það skiptir miklu að jafnaðarmenn hafi alvöruafl. Sérstaklega þegar glittir í gamaldags helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.“

Ánægð að sjá tveggja stafa tölu í fylginu

„Ég er mjög ánægð með að sjá fylgið mjakast upp. Það er í takt við það sem mér finnst ég finna í umhverfinu. Við höfum fundið fyrir vaxandi jákvæðni eftir því sem við höfum náð að fara meira um og hitta fleiri. Ég er auðvitað sátt við að sjá fram á að það sé að skila árangri,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, um könnunina.

Spurð um markmið VG í þessum kosningum segir Katrín að Vinstri grænir ætli að gera sitt besta og sjá hvaða árangri það skilar.

„Ég er ánægð með að sjá að þetta sé komið í tveggja stafa tölu. Ég neita því ekki.“

Við vildum gjarnan fá meira fylgi

„Þetta þýðir að við förum inn á þing með þingflokk, ef þetta fer svona. Við myndum vilja hafa hann stærri til að geta haft meiri áhrif. Markmiðið er að auka þetta á kjördag,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.

„Ein meginástæða þess að við erum í þessu er að við viljum breyta stjórnmálunum. Okkur finnast þau hafa verið í miklu óefni og stór mál í upplausn. Við vildum gjarnan fá meira fylgi til að geta haft meiri áhrif og við vinnum að því hörðum höndum. Við boðum breytt vinnubrögð í stjórnmálum og vonumst til að fólk vilji þau.“

Þakklát fyrir stuðninginn og meðbyrinn

„Ég er gríðarlega þakklát fyrir þennan stuðning og þann mikla meðbyr sem ég finn úti í samfélaginu,“ segir Birgitta Jónsdóttir, oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi, um könnunina.

„Það er ánægjulegt að fylgið skuli vera að mjakast upp. Ég tek stefnuna á 8,8%. Við þurfum að ná fólki inn í öllum kjördæmum,“ segir Birgitta sem segir að hún hefði viljað sjá meiri umfjöllun um litlu framboðin.

Hún kvarti þó ekki undan umfjölluninni sem Píratar hafi fengið. Þá segir hún flokkinn hafa eytt litlu sem engu í auglýsingar, sem sé af hinu góða.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Rax
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð.
Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð.
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum.
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert