Skora á Sigmund og Bjarna að skoða strimilinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson fóru saman í búð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson fóru saman í búð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu skora á formennina Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson að skoða strimilinn sem þeir fengu við matarinnkaupin í Krónunni í morgun. Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni, formaður Sjálfstæðisflokksins, komu við í matvöruverslun í Mosfellsbæ í morgun á leið sinni til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna utan borgarmarkanna.

Að mati SVÞ er hægt að lækka allverulega útgjöld heimilanna með breytingum á kerfisumhverfi verslunar í landinu, segir í áskorun frá samtökunum. Samningar um nýjan stjórnarsáttmála séu rétti vettvangurinn til að sameina sjónarmið flokkanna um hvað gera skuli í þessum málum á kjörtímabilinu. Samtökin minna á að kaupmáttur er lítill í landinu og lítið svigrúm til launahækkana í haust. Ný ríkisstjórn þurfi að vera reiðubúin að koma með eitthvað að borðinu í umræðum um kjarasamninga. 

Tiltekt er tímabær og knýjandi í núverandi efnahagsumhverfi, segja samtökin.

„Svarið um hvaða aðgerðir fyrir heimilin formennirnir tveir sem nú eiga í viðræðum eigi auðveldast með að ná saman um, gæti verið að finna á kassastrimlinum frá því morgun,“ segir í áskoruninni.

„Það er góðs viti finnst mér að væntanlegir oddvitar nýrrar ríkisstjórnar geri sameiginleg matarinnkaup í upphafi þeirrar vegferðar sem þeir eru nú á,“ er haft eftir Margréti Kristmannsdóttur, formanni SVÞ, í fréttatilkynningu.

„Það gefur manni aukna von um að leiðir til að lækka verð á daglegum neysluvörum og gera það ódýrara að lifa á Íslandi verði ofarlega í huga þeirra næstu daga. Ekki veitir af. Gamaldags og samkeppnishamlandi tollar og flókin vörugjöld eru helsta ástæða þess að verð á flestum nauðsynjavörum íslenskra heimila er miklu hærra en það þarf að vera. Ef þeir félagar keyptu sér t.d. parmesan-ost, kjúklingabringur eða svínalundir á grillið þá eru það vörur sem gætu verið allt að þriðjungi ódýrari, án þess að hróflað sé við þeim landbúnaði sem sátt er um í landinu.

Ég er viss um að svo háar tölur séu vel þegnar í því erfiða reikningsdæmi sem næsta ríkisstjórn stendur frammi fyrir. Lægri dagleg matarútgjöld koma bæði heimilunum og fyrirtækjunum vel. Æ oftar heyrist talað um að gera þurfi nýja þjóðarsátt í haust. En ég vil vara alla við - slík sátt getur ekki orðið, nema hún þýði meiri afgang í veskjum landsmanna.“

Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ.
Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert