Ræða einföldun á skattkerfinu

Sigmundur Davíð og Bjarni við samningaborðið, en þeir hafa fundað …
Sigmundur Davíð og Bjarni við samningaborðið, en þeir hafa fundað í sumarbústað við Þingvallavatn. Ljósmynd/Svanhildur Hólm

Eitt af því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafa rætt í dag og í gær eru hugmyndir um breytingar á skattkerfinu. Bjarni segist leggja mikla áherslu á skattkerfið verði einfaldað og skattstofnar breikkaðir.

„Þetta hefur gengið eins og við vonuðumst eftir. Við byrjuðum á því að skoða breiðu línurnar í samstarfinu. Við höfum verið að fikra okkur áfram í gegnum málaflokka. Það hefur gengið prýðilega,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is þegar hann var spurður um árangur viðræðnanna.

„Við sjáum fyrir okkur að með þessu áframhaldi eigum við að geta verið komnir langt öðru hvoru megin við helgina. Þetta hefur gengið vel.“

Bjarni sagði að þeir væru ekki búnir að fara í neinum smáatriðum í gegnum einstaka málaflokka. Hann sagði að samtölin sem hann átti við Sigmund Davíð í síðustu viku hefðu mikið snúist um skuldamál heimilanna og þeir hefðu ekki farið dýpra í þau mál í dag og í gær.

„Það sem mér finnst skipta mestu máli hvað varðar skuldamál heimilanna er að það er áherslumál beggja flokka að taka á skuldavanda heimilanna. Það er það sem sameinar flokkana þó að áherslur flokkanna um útfærslur hafi verið ólíkar. Ég hef ekki miklar áhyggur af því að við finnum ekki skynsama lausn á því máli eins og öðrum.“

Staða ríkissjóðs veikari en spár gerðu ráð fyrir

Síðan eru önnur mál sem tengjast skuldamálum heimilanna eins og staða Íbúðalánasjóðs og ríkissjóðs. Hafið þið ekki verið að ræða þau mál?

„Já, það er alveg rétt að það er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs. Það voru í síðustu viku að koma fram vísbendingar um að staða ríkissjóðs sé veikari heldur en spár gerðu ráð fyrir. Hagvöxtur hefur verið lítill og það hefur áhrif á tekjugrunn ríkissjóðs. Það verður ein af stærstu áskorunum nýrrar ríkisstjórnar að ná jafnvægi í ríkisfjármálin á sama tíma og hagkerfið verður örvað.“

Þú hefur talað fyrir skattalækkunum. Sérðu fram á að það verði svigrúm til að ráðast í þær fljótlega á kjörtímabilinu?

„Við erum að ræða um skatta á fundum okkar. Það er eitt helsta áherslumál okkar sjálfstæðismanna að lækka skatta, en með því er hægt að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Sanngjarnt og einfalt skattkerfi er líka forsenda þess að laða fram fjárfestingu. Það er alveg skýrt að það er stefna okkar sjálfstæðismanna að hverfa af þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur markað um flóknara skattkerfi og hærri skattprósentur. Við viljum breikka skattstofnana og einfalda kerfið.“

Ætla flokkarnir, ef þeir ná saman, að afnema fjölþrepa tekjuskattskerfið?

„Tekjuskatturinn er meðal þess sem við ætlum að taka til endurskoðunar, en ég get ekki úttalað mig um hvað semst um í þessum efnum. Þetta er klárlega eitt af áherslumálum okkar sjálfstæðismanna.“

Eru þið komnir það langt í þessum viðræðum að þú farir að gera þingflokki Sjálfstæðisflokksins grein fyrir stöðu þeirra?

„Nei, það er ekki komið að því, en ég geri það um leið og ástæða er til,“ sagði Bjarni.

Bjarni og Sigmundur Davíð halda áfram viðræðum á morgun.
Bjarni og Sigmundur Davíð halda áfram viðræðum á morgun. Ljósmynd/Svanhildur Hólm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert