Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram hinn 16. nóvember næstkomandi.
,,Ég leita eftir stuðningi við að skipa áfram 2. sæti listans þar sem ég tel að reynsla mín og kraftar nýtist Reykvíkingum best verði ég í forystusveit. Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í ýmsum málaflokkum undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta, t.d. í skólamálum, samgöngumálum og málefnum eldri borgara. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera Reykjavík líflegri og skemmtilegri borg þar sem frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja er virkjað og þar sem öll hverfi fá að njóta sín. Fjölga ber búsetukostum ungs fólks og gera sem flestum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir Kjartan í tilkynningu.
Kjartan hefur í störfum sínum öðlast víðtæka reynslu af borgarmálum. Hann hefur ætíð lagt áherslu á lága skatta og ábyrga fjármálastjórn. Kjartan hefur gagnrýnt þær áherslur sem núverandi meirihluti hefur lagt á margvísleg gæluverkefni, t.d. í umferðarmálum. „Tími er kominn til að forgangsraða í þágu grunnþjónustu í stað gæluverkefna,“ segir Kjartan ennfremur.
Menntamál - Kjartan telur að eitt mikilvægasta verkefni næstu ára sé að efla skólastarf í borginni og þá sérstaklega að bæta grunnskólamenntun eftir ákveðna stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Á vettvangi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hefur Kjartan m.a. lagt áherslu á gildi samræmdra mælinga til að bæta skólastarf og beitt sér fyrir því að foreldrar séu sem best upplýstir um námsárangur barna sinna og þess skóla sem þau ganga í. Þá hefur Kjartan lagt til að foreldrar fái umsagnarrétt um ráðningu skólastjóra eins og gert hefur verið með góðum árangri víða erlendis.
Samgöngumál - Kjartan vill styrkja ólíka samgöngukosti í borginni og er andvígur því að flugvallarstarfsemi verði flæmd úr Vatnsmýri innan fárra ára eins og tillaga að nýju aðalskipulagi gerir ráð fyrir. Þá telur Kjartan mikilvægt að auka umferðaröryggi í borginni, m.a. með úrbótum á stofnbrautakerfinu.
Málefni eldri borgara - Kjartan hefur einnig beitt sér í málefnum eldri borgara, m.a. með flutningi tillögu um aukið lóðaframboð fyrir þjónustuíbúðir í þágu eldri borgara í Reykjavík. Kjartan flutti einnig tillögu um að komið verði á fót sérstöku öldungaráði í Reykjavík, skipuðu eldri borgurum, sem verði borgarstjórn til ráðgjafar um málefni þeirra. Þá flutti Kjartan tillögu árið 2011 um að tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar fái afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi.
Aukið gagnsæi í fjármálum hins opinbera - Kjartan vill að almenningur sé vel upplýstur um það hvað skattarnir fara í hverju sinni. Fyrir ári flutti hann tillögu í borgarstjórn um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði birtar reglulega á netinu og þannig gerðar almenningi tiltækar. Þá hefur Kjartan barist fyrir því að allur kostnaður við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu verði birtur opinberlega með sundurliðuðum hætti.