Hefur áhyggjur af brottfalli

Guðmundur Baldvin Guðmundsson oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri
Guðmundur Baldvin Guðmundsson oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri Vikudagur/Karl Eskill

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, hefur miklar áhyggur af brottfalli nemenda úr skólum. Hann segir í samtali við Vikudag að Framsóknarflokkurinn stefni að því að ná inn þremur mönnum í bæjarstjórnarkosningum í vor.

„Ég hef um árabil setið í stjórn Starfsendurhæfingar Norðurlands og kynnst þeim vandamálum sem skapast hafa hjá unglingum sem flosnað hafa upp úr námi. Þarna tel að við þurfum að bregðast við með markvissari hætti. Rannsóknir sýna að við getum greint þá einstaklinga sem eru í áhættuhóp, því er mikilvægt að grípa inn í strax í grunnskóla og auka aðstoð bæði við nemendur og fjölskyldur þeirra. Í því sambandi vil ég skoða hvernig hægt er að bæta líðan einstaklingsins og nefni sem dæmi aukna sálfræðiaðstoð og heilsueflingu.“

Ósáttur við hallarekstur

Guðmundur Baldvin hefur gagnrýnt núverandi meirihluta fyrir að reka bæinn með halla.

„Ég hef gjarnan líkt rekstrinum við stórt flutningaskip og ef breyta á um stefnu þarf að gera það með góðum fyrirvara og undirbúningi. Við þurfum því að mínu mati að stórbæta alla áætlunargerð hjá bænum bæði til skemmri og lengri tíma litið og skapa með því forsendur fyrir markvissari rekstri í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert