Munum halda stefnu jafnaðarmanna á loft

Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingar í Kópavogi, segir að þær tölur sem birst hafa séu vonbrigði, en þær benda til þess að bæjarfulltrúum flokksins fækki um einn. Þrátt fyrir úrslitin verði stefnu jafnaðarmanna haldið hátt á loft á kjörtímabilinu.

Pétur segir tölurnar ekki í samræmi við það sem frambjóðendur hafi fundið fyrir, en mikil og góð vinna hafi verið lögð í kosningabaráttuna, og frambjóðendur hafi uppskorið góð viðbrögð hjá Kópavogsbúum. Pétur Hrafn segir að svo virðist sem að eitthvað af fylgi flokksins hafi farið yfir til Bjartrar framtíðar, en að einnig verði að horfa til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé að styrkja stöðu sína í Kópavogi, og hugsanlega sé lakari kjörsókn þar að spila inn í.

„Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg,“ segir Pétur Hrafn, og bendir á að nýtt fólk hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna í Kópavogi. „Við munum halda merki jafnaðarstefnunnar hátt á lofti“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert